Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Við erum öll ferðamenn, gestgjafar og íbúar

Höfundur:
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina, Íslandsstofu

 

Öll njótum við þess að ferðast um landið okkar og njóta náttúrunnar, menningarinnar, afþreyingarinnar, veitingastaðanna, og gistimöguleikanna sem í boði eru. Við erum öll ferðamenn, en við erum líka íbúar og gestgjafar þessa lands.

Jákvæð ímynd og orðspor er eitt það dýrmætasta sem nokkur áfangastaður getur átt, og slíkt getur tekið langan tíma að byggja upp. Við Íslendingar höfum borið gæfu til að hafa myndað jákvætt orðspor um landið okkar erlendis. Atvinnugreinin ferðaþjónusta hefur blómstrað og við erum álitin góðir gestgjafar og hér vill fólk líka búa.

Undanfarið höfum við þó átt í vandræðum með að koma skilaboðum áleiðis til erlendra ferðamanna um hvað teljist viðunandi hegðun á ferðalagi um landið. Maður trúir því varla að nokkur ætli sér að gera neitt rangt – viðkomandi veit bara ekki betur. Viðkomandi vantar ef til vill réttu upplýsingarnar eða þekkir ekki annað.

Kynningar- og markaðsstarf er ein áhrifarík leið sem við höfum til þess að hafa áhrif á hegðun ferðamanna og upplýsa enn betur. Við höfum þar tækifæri til samskipta og til þess að koma sameiginlegum skilaboðum, áherslum og upplýsingum á framfæri. Í febrúar síðastliðinn fór af stað markaðsherferð á vegum Íslandsstofu og fjölda íslenskra samstarfsaðila í ferðaþjónustu undir merkjum Inspired by Iceland. Markaðsherferðin ber heitið Iceland Academy. Henni er ætlað að auka vitund og áhuga á Íslandi sem áfangastað, ásamt því að leggja áherslu á ábyrga ferðahegðun erlendra gesta, auka öryggi þeirra og ánægju, og stuðla að því að þeir fái sem mest út úr Íslandsferðinni.

Á vefsíðu og samfélagsmiðlum Inspired by Iceland er fjallað um ábyrga ferðahegðun. Fjögur myndbönd hafa verið gerð sem fjalla með skemmtilegum hætti um öryggismál og útbúnað, vetrarferðamennsku og hvernig eigi að forðast vandræðagang í heita pottinum. Á næstunni munu síðan koma myndbönd um hvernig eigi að keyra á Íslandi, hvernig eigi að pakka og annað sem getur verið gott að vita fyrir ferðamenn á leið til Íslands.

Í dag hafa yfir 450 blaðagreinar verið skrifaðar erlendis um herferðina og er virði þeirra er metið á yfir 1,6 milljarða íslenskra króna. Meira en 3 milljónir hafa horft á myndböndin sem fylgja herferðinni, auk þess sem rúmlega 8300 manns hafa þreytt próf úr efni þeirra á netinu. Undanfarið höfum við einnig dreift litlum skiltum um allt land, í gestamóttökur, veitingastaði, gistiheimili og víðar – þar sem ferðamenn er hvattir til þess að kynna sér efnið til að tryggja ánægjuríka og örugga ferð um landið. Þá hefur Íslandsstofa einnig látið útbúa námsefni fyrir erlenda söluaðila Íslandsferða þar sem þeir geta kynnt sér land og þjóð, öryggi og ábyrga ferðahegðun. Þetta námsefni hefur fallið í afar góðan jarðveg og þegar hafa hátt í 150 söluaðilar farið í gegnum efnið og þreytt úr því próf frá því í mars.

Við viljum með þessu nýta kynningarstarfið og markaðssetninguna á jákvæðan máta til þess að laða hingað upplýsta ferðamenn sem ferðast með sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi, vilja njóta ferðarinnar, dvelja hér lengur, eyða meiru og ferðast víðar um landið. Rétt eins og við sjálf viljum vera ábyrg, njóta og fá jákvæða upplifun af okkar ferðalögum hvort sem það er innanlands eða erlendis. Því viljum við hvetja þig kæri ferðamaður og Íslendingur til þess að fara prófa líka Iceland Academy og athuga hvort að það er mögulega eitthvað upplýsandi fyrir þig þar.

Misfagrar sögur hafa gengið af hegðun erlendra ferðamanna undanfarið. Í flestum tilfellum gengur þetta þó allt saman áfallalaust fyrir sig og allir njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða á ábyrgan hátt. Erlendi ferðamaðurinn er ánægður með ferð sína og fer heim til sín með skemmtilegar og ævintýralegar sögur að segja, alveg eins og við höldum erlendis til þess að ferðast í öðrum löndum og koma heim með okkar eigin sögur þaðan.

Við vitum að heilmikil vinna þarf að fara fram á Íslandi í tengslum við íslenska ferðaþjónustu, en gleymum ekki að njóta þess sem gert hefur verið og byggt hefur verið upp síðustu ár. Starfsfólk í ferðaþjónustu gerir sitt besta, en allar ábendingar eru mikilvægar. Við skulum einbeita okkur að uppbyggilegri gagnrýni, en ekki skemma það sem við höfum byggt upp með neikvæðu umtali. Við viljum byggja upp land sem er gott að búa í, en er líka gott heim að sækja. Við erum öll íbúar, gestgjafar og ferðamenn sem munum njóta sumarsins á Íslandi.

 

Höfundur
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina, Íslandsstofu


*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel