*Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Varasamur boðskapur Oddnýjar Harðardóttur

Höfundur:
Þórir Garðarsson – Gray Line Iceland, Chairman of the Board & Corporate Development

Oddný Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar hefur í viðtölum og blaðagreinum lýst þeirri skoðun sinni að ferðaþjónustan eigi að greiða hærri virðisaukaskatt, fara úr lægra þrepinu í það hærra. Hún fullyrðir að annars séu ferðamenn að fá afslátt af neysluskatti og ferðaþjónustan njóti þar með ríkisstyrkja.

Þetta er meira en lítið varasamur boðskapur. Oddný horfir algjörlega framhjá því að við erum í samkeppni við öll önnur lönd heims um ferðamenn. Við getum ekki skattlagt ferðamenn eins og okkur sýnist. Þeir beina viðskiptum sínum einfaldlega annað ef þeim ofbýður verðlagningin. Flest lönd í Evrópu eru með ferðaþjónustu í neðra þrepi virðisaukaskatts til að vera samkeppnisfær um ferðafólk. Danmörk er eitt fárra landa með gistingu í hærra þrepi og þar hefur orðið gistiflótti yfir í nágrannalöndin Svíþjóð og Þýskaland, en þar er virðisaukaskattur á gistingu í lægra þrepi.

Þegar fólk getur ekki farið neitt annað með viðskipti sín komast stjórnvöld upp með ofurskattlagningu. Það þekkjum við Íslendingar mætavel. Sú aðferðafræði á ekki við gagnvart ferðamanninum. Hann getur sleppt því að koma hingað. Þegar hann veltir fyrir sér næsta áfangastað, þá hefur verð á flugi og gistingu afgerandi áhrif á valið. En formaður Samfylkingarinnar virðist meira en til í að taka þá áhættu að beina ferðamönnum eitthvert annað.

Ferðaþjónustan er eina útflutningsgreinin sem skilar virðisaukaskatti
Í málflutningi sínum forðast Oddný Harðardóttir að nefna að ekki aðeins er ferðaþjónustan eina útflutningsatvinnugreinin sem skilar virðisaukaskatti heldur fá aðrar útflutningsatvinugreinar endurgreiddan úr ríkissjóði innskatt af öllum aðföngum og kostnaði við framleiðsluna, þrátt fyrir að ekki sé lagður virðisaukaskattur á þeirra útflutningsvörur. Stóriðjan og sjávarútvegurinn fá þannig milljarða króna í endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði án þess að koma með skatt á móti. Virðisaukaskatturinn af þeirra framleiðslu rennur í erlenda ríkissjóði.

Allur virðisaukaskattur sem íslenska ferðaþjónustan innheimtir ratar á endanum í ríkissjóð. Sá innskattur sem ferðaþjónustufyrirtækin nýta til frádráttar er útskattur hjá einhverju öðru fyrirtæki. Það er því mikill misskilningur hjá Oddnýju þegar hún talar um að í einhverjum tilfellum fái fyrirtæki í ferðaþjónustu endurgreitt þegar innskattur er hærri en útskattur. Ríkissjóður tapar engu. Innskattur ferðaþjónustufyrirtækisins er til kominn vegna kaupa á vörum eða þjónustu. Þannig hefur það skapað aukin umsvif í hagkerfinu og meiri skatttekjur. Fyrrverandi fjármálaráðherra ætti að vita manna best hvernig virðisaukaskattskerfið virkar. 

Vill Oddný skattleggja ferðamanninn í burtu?
Oddný talar um að koma ferðamanna til Íslands valdi kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið, vegakerfið og löggæsluna. Hún getur þess í engu að ferðamenn sem þurfa að leita læknishjálpar borga hana fullu verði. Þegar þeir ferðast á bílaleigubílum og hópferðabílum um landið borga þeir fyrir viðhald vegakerfisins í gegnum innflutningsgjöld á þessum farartækjum og skattlagningu á eldsneyti. 

Kostnaður ferðamanna mundi hækka um 16%
Ísland er alls ekki ódýrt fyrir erlenda ferðamenn. Að undanförnu hafa útgjöld þeirra hér á landi aukist vegna styrkingar krónunnar. Margir hafa áhyggjur af því að veiking pundsins hafi neikvæð áhrif á komur breskra ferðamanna hingað utan háannatímans. Ef ferðaþjónustan færi í hærra þrep virðisaukaskatts mundi kostnaður ferðamanna hækka á einu bretti um a.m.k. 13% en með afleiddum áhrifum má gera ráð fyrir að kostnaðarhækkun verði um 16%. Um leið mundi draga úr getu ferðaþjónustunnar til að ráða starfsfólk og greiða laun.

Ef samdráttur verður í komu ferðamanna mun þeim fyrst fækka á landsbyggðinni, og síðast á höfuðborgarsvæðinu, en þar er sterkari rekstrargrunnur til að takast á við niðursveiflu. 

Ferðamenn hafa bjargað efnahagslífinu
Oddný Harðardóttir horfir algjörlega framhjá þeirri staðreynd að vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið bjargvættur efnahags þjóðarinnar. Við höfum fengið meiri gjaldeyristekjur en nokkur þorði að vona og þær hjálpa svo sannarlega til að losa um gjaldeyrishöftin. Atvinnuleysi er með allra minnsta móti þökk sé vexti ferðaþjónustunnar. Fyrir vikið er tryggingargjald að lækka. Uppbygging gistihúsnæðis hefur verið vítamínsprauta fyrir byggingariðnaðinn.

Ferðamenn eru auðvitað skattborgar meðan þeir dvelja hér. Bara virðisaukaskattur af neyslu ferðamanna jókst um 10 milljarða króna á milli 2014 og 2015, úr 15 í 25 milljarða. Stór hluti af viðskiptum þeirra við ferðaþjónustufyrirtækin kemur hins vegar ekki fram í innlendum neyslumælingum, þar þeim þau eru fyrirfram greidd erlendis.

Rammvilltur formaður Samfylkingarinnar
Formanni Samfylkingarinnar finnst hins vegar lítið til koma. Hún talar eins og ferðamenn séu afætur á þjóðfélaginu og ferðaþjónustan lifi á ríkisstyrkjum. Vonandi er að Oddný Harðardóttir fari að átta sig á því að hún er rammvillt í þessari umræðu.

Höfundur
Þórir Garðarsson – Gray Line Iceland, Chairman of the Board & Corporate Development

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel