Um „Over tourism“ eða „gestanauð“

marienplatz

Er „hit and run“ og „selfie stick“ ferðamennska að eyðileggja ferðaþjónustuna?

Hugtakið „over tourism“, sem kannski mætti þýða sem „gestanauð“,  verður sífellt meira áberandi í bæði í faglegri og almennri umræðu um ferðaþjónustu á alþjóðavettvangi.  En hvað þýðir þetta? Er „over tourism“ orðin staðreynd á Íslandi?

Fyrir tveimur og hálfu ári síðan heimsótti ég hinar fornfrægu borgir Pisa og Florence á Ítalíu. Þar var gríðarlega mikið af fólki á tiltölulega litlum svæðum. Þá flaug mér sú hugsun í fyrsta skipti í hug að ferðaþjónusta ætti sér svo sannarlega takmörk og að greinilegt væri að sífellt fleiri staðir í heiminum væru komnir að þolmörkum sínum. Ég hugsaði um og hef hugsað um það síðan, hvernig ferðaþjónusta í heiminum geti almennt vaxið áfram. Vitandi það að alþjóðleg ferðaþjónusta eykst stöðugt,  fleira fólk ferðast sífellt meira.  Á þessum tíma hafði ég aldrei heyrt hugtakið „over tourism“, en tengdi við það um leið og ég heyrði það í fyrsta skiptið.

En hvað er „overtourism“?

„Overtourism“ er einungis hægt að meta huglægt:

„Skilgreindur staður eða svæði, þar sem bæði gestgjöfum (heimamönnum) og gestum (ferðamönnum) finnst of mikið af þeim síðarnefndu – þannig að gæði staðarins og upplifun af honum skerðist verulega.“

Það eru einungis 2-3 ár síðan þetta hugtak fór að koma upp í umræðunni og samkvæmt henni er það einkum tengt við vinsælar ferðamannaborgir, sérstaklega í Evrópu.  Þar hafa oftast verið nefndar borgirnar Feneyjar, Barcelona og Dubrovnik og síðan hefur Reykjavík skotið upp kollinum í sumum þeirra fræðigreina sem ég hef lesið.  Í þessum borgum (og auðvitað fleirum) þykir sem sagt bæði heimamönnum og ferðamönnum alltof mikið af ferðamönnum sem þvælast hver fyrir öðrum, þannig að úr verður óánægja hjá báðum hópum. Heimamenn komnir með svokallaða „Tourismphopia“, sem er líka tiltölulega nýtt í umræðunni.  Það er mál manna að ekki sé þess langt að bíða, að náttúrulegir ferðamannastaðir fari að fá sig þennan „overtourism“ stimpil líka.

En hverjar skyldu vera ástæðurnar fyrir því að þetta ástand skapast? Þar hafa ýmsar ástæður verið nefndar til sögunnar, t.d. eftirfarandi:

  • Ferðalög færast stöðugt í vöxt. Á síðastliðunum 60 árum hefur hún fertugfaldast – en margir staðanna sem vinsælastir eru, hafa ekkert breyst. Nægir þar að nefna margar evrópskar miðaldaborgir.
  • Stækkun millistéttarinnar í heiminum – sífellt fleiri hafa tækifæri til og efni á að ferðast. Þar er einkum horft til Asíu.
  • Framboð á flugi og lækkun á flugfargjöldum – leiðir til tíðari ferðalaga, einkum hafa stuttar borgarferðir færst verulega í vöxt.
  • Stöðug aukning í fjölda skemmtiferðaskipa og aukin stærð þeirra. Sumir tala um að skemmtiferðaskiptaútgerðin sé mesti sökudólgurinn í „overtourism“ í borgum.
  • Ófullnægjandi langtímastefnumótun stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga. Ekki nægilegur skilningur á hugsanlegum neikvæðum afleiðingum ferðaþjónustu.
  • Gistimiðlarar á borð við airbnb hafa stuðlað að framboði af hagkvæmari gistimöguleikum og oft inni í íbúðarhverfum, þar sem hætt er við árekstrum við heimamenn. Hér eru stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir stefnuleysi, en Reykjavík nefnd sem dæmi um borg, þar sem gripið hefur verið til ráðstafana (90 daga reglan).
  • Markaðssetning þekktra svæða er auðveldari fyrir söluaðila og lönd, heldur en að koma „nýjum“ (óþekktari) stöðum á framfæri. Einnig eru hagsmunaaðilar þekktu staðanna hindrun, þar sem þeir kosta oft sameiginlega markaðssetningu og vilja ekki draga úr vægi sinna staða.
  • „Bucket list“ – ferðamenn: Þeir vilja heimsækja þekkta staði.
  • Alltof mikið af svokölluðum „hit and run“ og „selfie stick“ ferðamönnum, sem ferðast af nýtilkomnum ástæðum, sprottnum úr heimi samfélagsmiðla – þeir hafa engan raunverulegan áhuga á þeim áfangastöðum sem þeir heimsækja og lenda oft í menningarárekstrum.
  • Aðalmælikvarðinn er fjöldi ferðamanna. Hann er auðvelt og tiltölulega ódýrt að nálgast og hann hljómar vel, þegar meta á árangur. Þessi mælikvarði er hins vegar stórvarasamur þegar hann er notaður einn og sér, eins og við þekkjum hér á Íslandi.

Andstæða „over tourism“ er ábyrg ferðamennska, sem snýst um að bæta áfangstaði – með hagsmuni bæði heimamanna og ferðamanna í huga. Án þess að hér sé tekin afstaða til þess hvort við hér á Íslandi séum þegar farin að sjá „over tourism“, þá er alveg ljóst að okkar bíða stór verkefni.  Nokkur þeirra atriða sem nefnd eru hér að framan sem orsakavaldar þessa ástands eiga vel við hérlendis. Nánar verður fjallað um það síðar.

Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfunda. Ljósmynd: Pétur Óskarsson