Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Um frumvarp til laga

Um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald

Á Alþingi er í ferli frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hér að neðan ætla ég að stikla á stóru um þessi lög og horfa þá eingöngu í það hvernig þetta snýr að gististöðum og þá sérstaklega varðandi heimagistingu.

Í fyrstu grein kemur fram að „heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks eða í einni annarri fasteign í þeirra eigu, sem ekki eru boðnar til leigu lengur en átta vikur samtals á ári hverju“

Í þriðju grein kemur fram að rekstur heimagistingar sé skráningarskyld starfsemi og að tilkynna beri sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hefja eigi starfsemi og greiða skráningargjald og uppfylla skilyrði um brunavarnir.

Nú er frumvarpið í meðferð Alþingis og var nýlega gefin út breytingartillaga frá atvinnuveganefnd. Þar eru tvö atriði sem nefndin leggur til að breyta frá núverandi frumvarpi sem ég vil gjarnan skoða nánar. Í fyrsta lagi er það að lengja tímann sem aðilum er heimilt að leigja út á ári úr 8 vikum í 90 daga og einnig bæta þeir við að hverjum rekstraraðila sé heimilt að leigja út fyrir samtals 2 milljónir á ári og þá fyrir allt að tvær fasteignir.

Í öðru lagi er það atriði sem snýr að möguleikum sveitarfélaga til að hækka fasteignaskatt á þessari „atvinnugrein“ til samræmis við aðrar atvinnugreinar.

Við skulum aðeins rýna í hvaða áhrif þetta hefur. Í svari Airbnb – leiguvefsins til Túrista.is í janúar sl. kom fram að þar eru 3.903 auglýsingar fyrir íslensk gistirými.

Við skulum byrja á að gefa okkur nokkrar forsendur við þessa útreikninga. Í fyrsta lagi gefum við okkur að allar þessar 3.903 auglýsingar falli í flokk heimagistingar og í öðru lagi gefum við okkur að þær séu allar á hendi mismunandi aðila og að hver og einn geti þannig fullnýtt sér þessar 2 milljónir.

  • Ef nýtingin er 100% þá er verið að búa til atvinnugrein uppá 7,8 milljarð
  • Ef nýtingin er 75% þá er verið að búa til atvinnugrein uppá 5,8 milljarð
  • Ef nýtingin er 50% þá er verið að búa til atvinnugrein uppá 3,9 milljarð

Þessi atvinnugrein sem samkvæmt þessum útreikningi myndi velta nokkrum milljörðum og allt uppí jafnvel 8 milljarða yrði eingöngu skráningarskyld, ekki leyfisskyld. Hún væri einnig í samkeppni við aðra atvinnugrein sem eru gististaðir en á allt öðrum forsendum og fær þannig ákveðið samkeppnisforskot. Þarna yrði eigendum heimilt að leigja út íbúðir í allt að 90 daga á ári sem er þá lengur en margir sumargististaðir á landsbyggðinni eru opnir. Samt sem áður eru gerðar minni kröfur til þessarar gerðar gististaða sem eru svo að keppast um sama viðskiptavininn og eru jafnvel staðsettir hlið við hlið. Er það eitthvað sem atvinnuveganefnd þykir eðlilegt?

Út frá þessu er alveg ljóst að það hlýtur að teljast stórundarlegt að það sé bara allt í lagi skv. atvinnuveganefnd að 3 – 8 milljarða atvinnugrein verði til með þessari breytingu á lögum. Mun nær væri að hafa það að hámarki 60 daga sem viðkomandi væri leyfilegt að leigja út samtals.

Í sömu breytingartillögu frá atvinnuveganefnd er gert ráð fyrir að þær íbúðir sem verði í flokki heimagistingar teljist ekki vera í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þannig að þrátt fyrir að þarna verði til 3 – 8 milljarða atvinnugrein þá gefst sveitarfélögum ekki kostur á að hækka fasteignaskatt til samræmis við aðrar atvinnugreinar.

Þetta er einnig að mínu mati skrýtið að standi til að takmarka með lögum möguleika sveitarfélaga á að ná inn réttmætum tekjum frá þessari 3 – 8 milljarða atvinnugrein. Einnig er þarna verið að skekkja samkeppnishæfi þar sem ákveðnum hluta gististaða er gert að greiða fasteignaskatt fyrir atvinnuhúsnæði en öðrum gististöðum ekki.

Höfundur
Geir Gígja

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel