Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Tölur fyrir gistirekstur

Höfundur
Ingibjörg Ólafsdóttir

 

Uppgangur í ferðaþjónustu á Íslandi hefur vakið athygli víðar en hér á landi, aukningin sem orðið hefur undanfarin ár á sér fá fordæmi í heiminum, ef einhver. Hótelin í Reykjavík sýna nýtingatölur sem skáka vinsælustu stórborgum heims og ekkert lát virðist vera á ásókn ferðamanna til Íslands.

Tölulegar upplýsingar eru af skornum skammti þótt einhverjar séu, og eitt af verkefnum nánustu framtíðar er að afla þeirra og halda utan um þær markvisst. Þær eru lykilatriði til svo margra hluta, t.d. að sanna gildi ferðaþjónustu, mæla tekjur sem hún skilar til ríkisins og þær gagnast fyrirtækjum til markaðssetningar, verðstýringar og arðsemismats. Hótel í Reykjavík nýta sér flest þjónustu“Benchmarking Alliance“sem heldur utan um nýtingu og meðalverð. Gestirnir eru flokkaðir eftir tilgangi heimsóknar sem aðstoðar við greiningu á verðmæti gesta, hverjir borga hæstu gistiverðin og hvenær. Hótelin mæla svo sína frammistöðu miðað við markaðinn og lykiltalan sem skiptir þar máli er hvaða tekjur eru á framboðið herbergi, eða RevPAR. Þetta er gríðarlega mikilvægt tæki til að greina viðskiptin niður á vikudagana og hvort munur er á viðskiptagestum og afþreyingargestum.

Pistlahöfundur stýrði hótelum í Leeds í nokkur ár, hjá 3 mismunandi hótelkeðjum. Þá kom berlega í ljós hvað við Íslendingar erum aftarlega þegar kemur að því að safna og bera saman mismunandi lykiltölur. Þar skiluðu hótelin tölum úr rekstri inn í „Hotstats“ gagnagrunn sem sendi mánaðarlega niðurstöður sem unnt var að bera sig við. Lykiltölur voru t.d. launahlutfall, kostnaðarhlutfall matar og drykkja og hlutfall rekstrarhagnaðar svo eitthvað sé nefnt.

Þessi samanburður á upplýsingum hefur margþættan tilgang. Þetta er mælikvarði á frammistöðu hótelanna, hvort arðsemi er í takt við markaðinn og þetta er einstakt tækifæri til að skoða raunverulega arðsemi fyrir hugsanlega fjárfesta og í endurnýjunar ákvörðunum.

Það virðist almennt vera viðkvæmt hér á Íslandi að senda frá sér upplýsingar hvað sem því veldur. Hugsanlega liggja þessar stærðir ekki fyrir mánaðarlega sem er út af fyrir sig sérstakt en líklegast er að meðvitundin um gagnsemina hafi ekki alveg síast inn. Við horfum á eigin frammistöðu og gleðjumst yfir aukningu á arðsemi en vitum ekki hvort markaðurinn er að gera betur.

Mörg fyrirtæki sjá um gagnagrunna af þessu tagi og það ætti að vera okkur kappsmál að fá upplýsingar. Þetta er líka gott í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi þar sem nokkuð ljóst má vera að þeir sem hafa allt sitt á hreinu myndu fúslega skila inn tölum.

„Benchmarking Alliance“ er að kynna þessa upplýsingaöflun og vonandi verða þessar tölur jafn sjálfsagðar og nýting og meðalverð, hvort sem við fáum upplýsingarnar frá þessu fyrirtæki eða öðrum. Það er okkur öllum í hag að auka arðsemi og samanburður við markaðinn er lykilatriði.

Baráttukveðjur!

Ingibjörg Ólafsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel