Þurfa allir að kunna íslensku

Þurfa allir að kunna íslensku?

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

Undanfarið hefur skapast nokkur umræða um tungumálakunnáttu erlends starfsfólks hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Allir vita að hluti starfsfólks (þó ekki liggi fyrir hversu stór) er af erlendu bergi brotinn og talar litla sem enga íslensku. Þar til fyrir örfáum árum takmörkuðust störf erlends  starfsfólks,  sem ekki talaði málið, aðallega við störf í bakgrunni.  Þó mátti rekast á einn og einn næturvörð á hótelum í Reykjavík, sem ekki  var íslenskumælandi.  En nú er öldin önnur og mikið af erlendu starfsfólki vítt og breitt  í  ferðaþjónustu og er það vel.  Enda gætum við um þessar mundir  mjög líklega ekki mannað öll störf í greininni með innlendu vinnuafli. Því má svo bæta við að það er gríðarlega jákvætt að fá innlegg frá útlendingum t.d. við framleiðslu ferða, sölu- og markaðsmál, leiðsögn og margt fleira – þar sem bakgrunnur þeirra, menningarheimur og móðurmál  er mikils virði. En komum aftur að tungumálakunnáttunni. Þarf starfsfólk í ferðaþjónustu  á Íslandi að kunna íslensku? Þetta hefur verið rætt töluvert innan „kreðsa“  greinarinnar og í vaxandi mæli utan hennar og þar sýnist hverjum sitt eins og vanalega. Eftirfarandi hefur  m.a. komið fram í umræðunni:

  • Það er óþarfi að starfsfólk í ferðaþjónustu kunni íslensku, þar sem viðskiptavinirnir eru allir útlendingar.
  • Það er heimóttaskapur að finnast starfsfólk í ferðaþjónustu þurfi að kunna íslensku.
  • Íslendingar sem vinna í útlöndum þurfa ekkert að kunna tungumálið sem þar er talað.
  • Það er ekki hægt að fá starfsfólk sem talar íslensku.
  • Það er rasismi að krefjast þess að starfsfólk í ferðaþjónustu tali íslensku.
  • Það er óásættanlegt að Íslendingar sem eiga viðskipti við ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi þurfi að tala ensku við starfsfólk.
  • Starfsfólk íslenskra fyrirtækja á að kunna íslensku
  • Ferðamenn eru að koma hingað til að kynnast íslenskri menningu og Íslendingum
  • Fyrirtæki missa „karakterinn“ og sérstöðuna, verða alþjóðleg og óspennandi

Hér er úr vöndu að ráða og ekkert rétt eða rangt. Mér persónulega finnst að starfsfólk sem starfar í framlínu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja þurfi að kunna íslensku og kunna sæmileg skil á landinu og menningunni.  Þetta  snýst einfaldlega um ímynd, þjónustu og trúverðugleika út á við.  Um vöruna sem við erum að selja.  Þó að ég geti skammlaust talað önnur tungumál en íslensku, þá vil ég ekki þurfa að tala eða skrifa ensku, þegar ég á í samskiptum við íslensk fyrirtæki á Íslandi.  Mér finnst að fólk sem svarar fyrir hönd fyrirtækisins og veitir þjónustu eigi að geta gert það á íslensku.  Fólk sem svarar í síma, tekur á móti gestum á hótelum, veitingastöðum, söfnum og þess háttar.  Mér finnst það ótraustvekjandi þegar ég vegna starfa minna hringi í stór og stöndug ferðaþjónustufyrirtæki og þarf að skipta yfir í ensku til að bera upp erindi mitt.

Það er kolrangt að halda því fram að  viðskiptavinir ferðaþjónustufyrirtækja séu allir erlendir.  Íslendingar eru þriðji stærsti einstaki viðskiptavinahópur íslenskra gististaða, svo dæmi sé tekið. Aðeins Bretar og Bandaríkjamenn gistu oftar á íslenskum gististöðum árið 2015 (Hagstofa Íslands). Íslendingar eru viðskiptavinir veitingahúsa og verslana og það má telja það líklegt að flestum þeirra sé ekki um það gefið að geta ekki gengið að því vísu að geta talað sitt móðurmál þar. Það er nákvæmlega  ekkert  „hipp og cool „ við það að þurfa að tala ensku heima hjá sér og líklegra að það valdi frekar en hitt andúð á ferðaþjónustu meðal heimamanna.  Sem við viljum auðvitað alls ekki.  Að auki eiga margir aðrir viðskipti við þessi fyrirtæki aðrir en gestirnir sjálfir, s.s. íslenskir birgjar og samstarfsaðilar. Það er ekki heimóttaskapur, íhaldssemi  eða skortur á víðsýni að finnast að notkun íslensku í íslenskum fyrirtækjum eigi að vera meginreglan  og að starfsfólk í framlínu íslenskra ferðaþjónustufyritækja ætti að kunna íslensku.

Gleymum því heldur ekki að ferðamennirnir okkar vilja í viðbót við náttúruupplifunina líka komast í snertingu við íslenska menningu. Eiga samskipti og viðskipti við heimamenn. Kynnast íslensku einlægninni, sveitamennskunni , gestrisninni,  fúskinu, elskulegheitunum og reddingunum.  Einhver alþjóðleg samsuða sem er búið að gelda og strípa af allri sérstöðu bætir engu nema leiðindum við ferðalagið.

Ég er nokkuð viss um að Íslendingar í útlöndum fá ekki vinnu þar sem þeir þurfa að tala mikið, fyrr en þeir hafa náð tökum á tungumáli viðkomandi lands. Í Þýsklandi  t.d. væri það nánast óhugsandi að fá vinnu, þar sem eiga þarf samskipti við Þjóðverja, án þess að tala þýsku. Mállaus Íslendingur að afgreiða í þýsku bakaríi er útópía.  Mér finnst að við getum alveg tekið okkur það til fyrirmyndar.

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

* Ljósmynd Bjarnheiður Hallsdóttir
* Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar