Europa, Skandinavien, Island, Suedisland, Reynisfjara, Basaltsaeulen, Basalt, Vulkanismus, Insel, Norden, Natur, Landschaft, WerbungPR, 8/2011

Svarta ströndin

Höfundur Bjarnheiður Hallsdóttir

Svarta ströndin við syðsta odda landsins er einn af magnaðri stöðum Íslands.  Þar er ægifagurt um að litast og kraftar náttúrunnar óvíða eins sýnilegir og akkúrat þar.  Enda er svæðið í kringum Vík í Mýrdal orðið einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Sumarið 2016 var hann samkvæmt niðurstöðum úr „Sumarkönnun Ferðamálastofu“  þriðji mest sótti ferðamannastaður landsins á eftir Gullfossi/Geysi og Þingvöllum.  Bara á tímabilinu júní-ágúst 2016 heimsóttu  því u.þ.b. 350.000 erlendir ferðamenn Vík og nágrenni. Fleiri en allir Íslendingar samtals.

Það sem gerir svörtu ströndina svona eftirsóknarverða gerir hana einnig hættulega. Nálægðin við ótamdar öldur Atlantshafsins er varasöm.  Fjaran er lífshættuleg.  Þrír ferðamenn hafa látið lífið í Reynisfjöru/Kirkjufjöru.  Sá fyrsti árið 2007. Hinir tveir árin 2016 og 2017. Nokkrir hafa sloppið naumlega með skrekkinn.  Þetta gerir fjöruna að varasamasta stað landsins fyrir ferðamenn, fyrir utan hálendið, jöklana og þjóðvegina auðvitað.  Til samanburðar má geta þess að að á árunum frá 2007-2016 létust samkæmt upplýsingum frá Umferðarstofu,  alls 13 erlendir  ferðamenn í umferðinni á Íslandi.

Ferðaþjónusta á Íslandi byggir fyrst og fremst á náttúruupplifun.  Á Íslandi eru margir staðir þar sem auðveldlega má fara sér að voða. Staðir sem oft eru nefndir í því samhengi eru klappirnar niður við Gullfoss og ekki síður Dettifoss, þverhnípið við Látrabjarg og allir óvörðu sjóðheitu hverirnir.

Óútreiknanleg hætta

Munurinn á svörtu strandlengjunni við Vík í Mýrdal og öðrum fjölsóttum ferðamannastöðum er aðallega einn.  Hann er sá, að hættan þar er óútreiknanleg.  Öldurnar sem ganga á land virðast ekki fylgja neinu rökréttu mynstri. Því er aldrei hægt að vita hvenær stór og mikil alda með kröftugu útsogi gengur á land – oft í kjölfar lítilla og hættulausra alda.  Hættan við Gullfoss, Dettifoss og Látrabjarg er augljós. Ekki fara of nálægt brúninni.

Í kjölfar hörmulegra dauðaslysa eins og þess sem varð í Kirkjufjöru nú í janúar, fer umræðan oftast á flug. Hverju eða hverjum er um að kenna?  Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi? Íslendingar eru fámenn þjóð, hvert mannslíf er óumræðanlega dýrmætt. Þessa hugsun færum við yfir á ferðamennina okkar og er það vel. Við berum umhyggju fyrir þeim og viljum að allir komist heilir til síns heima.  En stóra spurningin er:  Hvar endar okkar ábyrgð og hvar tekur ábyrgð ferðamannsins á sjálfum sér við?  Um þetta eru ekki allir á sama máli.

Hvað getum við gert?

Í umræðunni um varúðarráðstafanir í fjörunum við Vík hafa einkum eftirfarandi aðgerðir verið nefndar:

 • Loka fyrir umferð í fjörunni
 • Girða fyrir svo ferðamenn komist ekki nema í vissa nálægð við sjóinn
 • Hafa stöðuga landvörslu á staðnum
 • Auka lögreglueftirlit á svæðinu
 • Endurhanna upplýsingaskilti á staðnum
 • Tryggja að ferðamenn fái fyrirfram upplýsingar um hættuna

Hvað eigum við að gera?

Þegar við tökum ákvörðun um það, þurfum við að huga að ýmsum atriðum, til dæmis þessum:

 • Er Reynisfjara það hættuleg að við þurfum að grípa til aðgerða?
 • Er öryggisskiltið í fjörunni nógu gott eins og það er?
 • Viljum við að ferðamannastaðirnir okkar verði áfram „náttúrulegir“, þ.e. að áherslan á ómengaða náttúruna verði áfram í fyrsta sæti, með öllum kostum og göllum?
 • Viljum við stíga það skref að taka ábyrgðina á okkur, þ.e. taka ábyrgð á lífi og limum ferðamanna á vissum svæðum?
 • Er raunhæft og gerlegt að grípa til róttækra aðgerða eins og t.d. vöktunar lögreglu eða landvarða í Reynisfjöru?
 • Hvaða kostnað erum við tilbúin að taka á okkur ?

Sláandi munur á viðhorfum

Það er líklega aldrei hægt að komast að hinni einu réttu niðurstöðu í málum sem þessum. Hæglega má rökræða fram og aftur um hvort og þá hvaða aðgerðir séu æskilegar og raunhæfar.  Undanfarna daga hef ég rætt þetta mál við marga starfsmenn í ferðaþjónustu, bæði  íslenska og þýska.  Þó niðurstöður þeirra umræða séu vissulega ekki vísindalegar, þá hefur munurinn á viðhorfi Íslendinga og Þjóðverja verið sláandi.  Íslendingarnir hafa nánast allir verið tvístígandi, sveiflast á milli þess að vilja róttækar aðgerðir og  litlar eða engar aðgerðir. Þjóðverjarnir voru undantekningarlaust á þeirri skoðun að við ættum ekkert að gera, nema upplýsa. Setja reglur. Hver ber ábyrgð á sjálfum sér og sá sem fer ekki eftir reglunum getur sjálfum sér um kennt.  Þjóðarsálin er mismunandi.

Niðurstaða mín eftir vangaveltur fram og aftur er sú að við eigum að gera  eftirfarandi:

 • Setja upp nýtt skilti með myndrænum upplýsingum (einni mynd) og skýrum, stuttum texta. Skilaboðin einföld og fljótlesin: Lífshætta, óútreiknanlegar öldur, ekki fara of nálægt sjónum. Gera aðgengi að fjörunni þannig úr garði að ekki sé hægt að komast hjá því að sjá skiltið.
 • Setja upp minningarsteina eða krossa til minningar um þá sem týnt hafa lífi í fjörunni. Virkar eflaust einnig vel sem forvörn.
 • Hvetja söluaðila Íslandsferða og þjónustuaðila innanlands, þar sem það á við – til að benda sérstaklega á þessa hættu í upplýsingum sínum til ferðamanna

Við þekkjum öll tilfinninguna að vilja koma í veg fyrir allt sem hugsanlega getur farið úrskeiðis í lífinu. Þeir sem eiga börn þekkja þá tilfinningu að það er erfitt að sleppa af þeim hendinni – í fyrsta hjólatúrinn án fylgdar, á fyrsta skólaballið á unglingsárunum svo ekki sé minnst á ökuferðir 17 ára unglingsins. Við vitum líka að það eina sem við getum gert er að kenna og upplýsa og treysta því svo að viðkomandi noti það sem hann hefur lært til að fara sér ekki að voða.  Þetta finnst mér einnig eiga við í sambandi Íslendinga og erlendra gesta okkar.