Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Rangar áherslur í opinberri fjárfestingu

Greinin hefur birst áður, í Morgunblaðinu 15.mars 2016.

Höfundar:
Örn D. Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands
Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri
Bjarni Frímann Karlsson, lektor við Háskóla Íslands

 

Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins nýverið kynnti hið opinbera áformaðar framkvæmdir fyrir tæpa 100 milljarða króna árið 2016, sem er tugmilljarða aukning frá fyrra ári. Miðað við tölur Hagstofu Íslands um fjárfestingar hins opinbera og fyrirtækja þess hafa viðlíka fjárfestingar ekki sést síðan fyrir hrun og má því til sanns vegar færa að íslenskt hagkerfi sé komið á nokkra siglingu á ný.

 

Fjárfest í stóriðju

Þegar rýnt er í kynningarnar á útboðsþinginu sést að af fjárfestingum ársins 2016 á Landsvirkjun um 20 milljarða og Landsnet um 11 (sem Landsvirkjun og RARIK eiga 87,24%). Að auki eru önnur veitufyrirtæki rafmagns með um 5,7 milljarða. Vegna umfangsmikilla sölusamninga við vænta og núverandi stórnotendur, sem þegar nota 85% alls rafmagns í landinu, er nauðsynlegt að efla flutningskerfið og að því er unnið samanber áform Landsnets (mynd 1) og Landsvirkjun hefur frekari áform um raforkuframleiðslu vegna orkufrekra verkefna (mynd 2), sem þarf að færa rafmagn til.

Mynd 2. Fjárfestingar Landsvirkjunar á tímabilinu 1995-2016. (Heimild: Landsvirkjun)
Mynd 2. Fjárfestingar Landsvirkjunar á tímabilinu 1995-2016. (Heimild: Landsvirkjun)

Helstu röksemdir síðustu ára fyrir því að opinberir aðilar fari í stórtækar fjárfestingar í raforkuframleiðslu hafa verið að draga þurfi úr slaka og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Rúmum þriðjungi allra fjárfestinga hins opinbera árið 2016 á að verja í innviði fyrir frekari stóriðju, sæstreng eða önnur raforkustórvirki sem alls er óljóst um hvort af verði og arðsemi í besta falli umdeild. Þessar fjárfestingar munu binda hendur okkar strax á meðan tekjurnar, algjörlega óvissar, skila sér á löngum tíma sem mælist í áratugum. Fyrirséð er að fjárfestingar raforkugeirans á þessu ári kalla á enn frekari fjárfestingar á næstu árum. Skuldir hans nema í dag nær 500 milljörðum króna og blasir það við að þær munu vaxa ef haldið verður áfram á þessari braut.

 

Hlutdeild ferðaþjónustu

Frá hruni hefur ferðaþjónusta Íslendinga innanlands sem utan borið uppi gjaldeyrisöflun landsmanna. Hún birtist okkur fyrst og fremst í jákvæðum þjónustujöfnuði við útlönd. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2015 var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 190,7 milljarða. Á sama tíma var hinsvegar vöruskiptajöfnuður óhagstæður um 35,5 milljarða (mynd 3).

Mynd 3. Vöruskipta- og þjónustujöfnuður ásamt árlegri fjölgun ferðamanna. (Heimild: Hagstofa Íslands og Ferðamálastofa)
Mynd 3. Vöruskipta- og þjónustujöfnuður ásamt árlegri fjölgun ferðamanna. (Heimild: Hagstofa Íslands og Ferðamálastofa)

En tekjur af ferðaþjónustu birtast ekki bara sem „þjónustutekjur“. Ferðaþjónustan er birtingarmynd hérlendis af heildstæðum hnattrænum umskiptum þar sem samskipti fólks, hvort sem þau eru bein eða miðlað með tækni, eru að verða undirstaða nýsköpunar og verðmæta heimsins. Þessi umskipti birtast ekki bara í tölum heldur og blómlegra mannlífi. Í þessu samhengi eru innviðir fyrir ferðaþjónustu af tvennum toga. Annars vegar öflugar samgöngutengingar og hins vegar samskiptatengingar.

Þegar kemur að innviðum ferðaþjónustu eru það bara fjárfestingar- og uppbyggingaráform ISAVIA á Keflavíkurflugvelli uppá 12,4 milljarða árið 2016 sem nokkuð telja. Af heildarfjárfestingu ráðuneyta má telja 7,5% til ferðaþjónustu, mest hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og forsætisráðuneyti vegna uppbyggingar þjónustu á einstaka áfangastöðum. Þar er lang stærst stækkun gestastofu á Hakinu á Þingvöllum (300-380 milljónir) og bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Klaustri (340 milljónir), annað telur aðeins í milljónatugum. Hjá ráðuneyti ferðamála eru ekki neinar fjárfestingar fyrirhugaðar. Framlög til vegagerðar dragast meira að segja saman á næstu árum samkvæmt núverandi tillögu að samgönguáætlun.

Bæta þarf úr brýnum úrlausnarefnum ferðaþjónustu, en þar sem hún er einnig samofin breyttum lífsháttum almennt þarf að búa hana í haginn fyrir eigin framtíðarmöguleika sem hreyfiafl í nýsköpun og fjölþættari verðmætasköpun. Ljósleiðaravæðing landsins sem metin er á um 6 milljarða myndi skipta sköpum fyrir forsendur ferðaþjónustu. Fjárfesting í samþættingu samgönguinnviða mundi einnig breyta miklu fyrir greinina. Auk þessa verður þó að koma til hugarfarsbreyting í atvinnumálum landsmanna þar sem búið er í haginn fyrir sjálfbær framlegðardrifin einkafyrirtæki, en þar er ferðaþjónustan einmitt ásamt t.d. skapandi greinum og hugbúnaðargerð.

Þeir aðilar sem standa að útboðsþinginu voru: samtök arkítektastofa, félag ráðgjafarverkfræðinga; félag vinnuvélaeigenda og félag vertaka. Þetta eru einmitt þeir aðilar sem hafa þá þekkingu og færni sem þarf til að takast á við þau aðkallandi verkefni sem hafa komið til með tæknibreytingum, tengdum netvæðingu og stóraukinni fjölgun erlendra gesta. Grundvallarmunurinn á ferðaþjónustu og stóriðju er sá að hún byggir ekki á því að stórauka vöruútflutning með ríkistryggðum erlendum lánum upp á hundruð milljarða á örfáum árum sem mögulega verða ekki endurgreidd án aðkomu hins opinbera. Ferðaþjónustan skapar þjónustutekjur sem nota má strax til að ráðast í vegagerð, ljósleiðaravæða landið og auka öryggi og efla upplifun með smíði og hönnun metnaðarfullra mannvirkja á helstu áfangastöðum.

 

Kallað eftir hugarfarsbreytingu

Þörf er á hugafarsbreytingu er kemur að atvinumálum Íslendinga. Hugarfarsbreytingu sem tekur mið af gjörbreyttum forsendum í netvæddum og betur tengdum heimi. Þarna leika lífsstílstengdar væntingar, bæði heimamanna og gesta erlendis frá, aðalhlutverk og forgangsraða þarf í samræmi við það. Þau verkefni sem eru hvað mest aðkallandi kosta lítið og eru, svo að segja, staðgreidd og verkkauparnir eru landsmenn allir, ríki og sveitarfélög.

 

Höfundar
Örn D. Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands
Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri
Bjarni Frímann Karlsson, lektor við Háskóla Íslands

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel