Ráðherra í lukkupotti

Höfundur Bjarnheiður Hallsdóttir

Tímamót gefa oft tilefni til hugleiðinga. Á splunkunýju ári hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum. Einn nýju ráðherranna datt heldur betur i lukkupottinn þegar hann hreppti mest spennandi ráðuneytið sem var í boði. Helst hefði ég auðvitað viljað sjá sérstakt ráðuneyti ferðamála, en það eru góðar fréttir að málaflokkunum sem ráðherra á að sinna, hefur fækkað.  Ég vona allavega að nýskipaður ráðherra verði aðallega ferðamálaráðherra, því það er sá málaflokkur sem er einn af þeim öflugustu í íslenska hagkerfinu og ef ekki bara öllu þjóðlífinu um þessar mundir.

Uppsöfnuð þörf fyrir „inngrip og afskipti“

Í málefnum ferðaþjónustu í stjórnsýslunni er þörfin mikil og uppsöfnuð til margra ára. Við Íslendingar sem þjóð höfum því miður aldrei sinnt þessum málaflokki sem skyldi og af þeirri framsýni sem hefði þurft. Ferðaþjónustan hefur vaxið á ógnarhraða undanfarin ár og það nánast án allra ríkisafskipta – allavega hefur ríkið ekki þurft að kosta miklu til miðað við þann ávinning sem það hefur haft af greininni. Uppbygging og fjárfesting hefur að mestu leyti verið í höndum íslenskra einkaaðila. Ekki hefur heldur verið farið í stórar fjárfestingar í innviðum fyrir ferðaþjónustu eins og sumar aðrar greinar.  Á meðan hún hefur vaxið fyrir tilstilli einkaframtaksins, hafa verkefnin sem enginn nema hið opinbera getur sinnt, að stórum hluta setið eftir og hrúgast upp. Staðan er orðin þannig að þessi verkefni sem að ríkinu snúa munu fljótlega fara að standa ferðaþjónustu í landinu fyrir þrifum, verði ekkert að gert mjög fljótlega.

Engar ívilnanir eða skattafslættir

Öfugt við fyrirtæki í öðrum stórum atvinnugreinum hafa ekki verið gerðir neinir ívilnunarsamningar af neinu tagi við ferðaþjónustufyrirtæki. Hvað þá erlend ferðaþjónustufyrirtæki. Og þvert ofan í það sem sumir segja að ferðaþjónustan hafi fengið ívilnanir í formi „skattafsláttar“ t.d. af virðisaukaskatti, þá er það einfaldlega ekki rétt.

Að ferðaþjónusta skuli að stórum hluta vera í neðra þrepi virðisaukaskatts er einfaldlega af samkeppnisástæðum. Svo Ísland geti tekið þátt í alþjóðlegri samkeppni. Því hvort sem menn vilja trúa því eða ekki, þá á Ísland í harðri samkeppni við aðra áfangastaði um hylli ferðamanna.

Brunalistinn

Á mínum vinnustað er stundum búinn til svokallaður „brunalisti“. Hann tekur saman verkefni sem þarf að leysa strax. Annars muni eitthvað láta undan. Ég hugsa að margir í ferðaþjónustu gætu sammælst um að þessi atriði  séu á „brunalista“ ferðaþjónustu á Íslandi:

 • Aðstöðumál við ferðamannastaði (þá bæði með tilliti til náttúruverndar, öryggismála og hinna sívinsælu salernismála),
 • Vegakerfið – bæði með tilliti til uppbyggingar, merkinga, úrbóta og þjónustu, t.d. á vetrum
 • Sveitarfélögin – hvernig er best að tryggja þeim fjármagn til að sinna verkefnum sem á þau falla?
 • Rannsóknir – við vitum svo lítið en þurfum að vita svo margt
 • Menntun – við þurfum að stórauka, breyta, bæta og ekki síst samræma menntunarframboð fyrir fólk sem vill starfa við ferðaþjónustu.
 • Markaðsmál – Við þurfum meira fjármagn í markaðsmál bæði hér innanlands og fyrir þá erlendu markaði sem við viljum einbeita okkur að.

Fjármögnunin

Fjármögnun verkefna hins opinbera hefur verið deiluefni árum saman og það er alveg á hreinu að aldrei verður hægt að komast að niðurstöðu sem allir geta sætt sig sig við. Á henni hafa allir skoðun, bæði leikir og lærðir.  Eftirfarandi leiðir hafa helst verið nefndar til sögu:

 • Að innheimta miðlægt gjald af ferðamönnum, með öflugum eftirlitsiðnaði (t.d. Náttúrupassi)
 • Að innheimta gjald á ferðamannastöðunum sjálfum ( jafn mismunandi eins og þeir eru margir)
 • Að hækka gistináttagjald & breyta innheimtugrunninum úr einingu (eining = sumarhús, herbergi, hjólhýsi, tjald) í einstakling
 • Að innheimta komugjald af öllum farþegum sem koma til landsins
 • Innheimta „svæðisskatt“ (city tax) til að sveitarfélög fái hluti tekna beint til sín
 • Að innheimta ekkert frekar, beinar og óbeinar skatttekur af ferðaþjónustu fjármagni

Fleira fólk takk!

Ég vona svo sannarlega  að nýjum ráðherra  gangi allt í haginn í ráðuneytinu og að hann heillist af þessari skemmtilegu, fjölbreyttu en einnig gríðarlega krefjandi atvinnugrein sem ferðaþjónusta er. Ferðaþjónustan mun án nokkurs vafa og vonandi kosta margar vinnustundir.  En ég ætla nú rétt að vona að nú verði gerð róttæk breyting á starfsmannahaldi í ráðuneytinu og að ferðamálin fái stóran og góðan hóp sérfræðinga eins og önnur ráðuneyti hafa haft í áratugi. Annað er algjörlega óásættanlegt.  Ef ferðaþjónusta á að vaxa og dafna áfram þarf hún nefnilega töluverða „fjárfestingu“ . Bæði beina fjárfestingu sem og hugmyndafræðilega.

Hún mun einnig krefjast töluverðrar sköpunargáfu og vilja til að fara óhefðbundnar leiðir.  Þessi atriði eiga bæði við einkarekstur og hið opinbera.  Það sem síðan bætist í „bagga“ hins opinbera er síðan brýn nauðsyn á frumkvæði og einbeitts vilja til að vinna ferðaþjónustunni gagn. Síðast en ekki síst kjarks til að taka umdeildar ákvarðanir til að koma hlutum í verk.

Til hamingju Þórdís!

Innilega til hamingju með skemmtilegasta ráðherraembættið Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð. Við hlökkum til að vinna með þér!

 • Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar
 • Mynd Bjarnheiður Hallsdóttir