island

Frá Ritstjórn

Það er með mikilli ánægju sem við kynnum til leiks Ferðapressuna, nýjan miðil fyrir umræðu um ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðapressan mun stuðla að og auka faglega og fræðilega umfjöllun um þau fjölmörgu málefni sem snerta þessa stærstu útflutningsgrein Íslands. Á Ferðapressunni mun hópur fólks með víðtæka menntun og/eða áralanga reynslu úr greininni skrifa reglulega pistla um ferðaþjónustu í víðu samhengi. Gestapennar munu svo skrifa annað slagið. Við hvetjum þá sem áhuga hafa á að senda inn pistla til þess að senda okkur línu.

Ferðapressan er ætluð öllum jafnt utan ferðaþjónustu sem innan, sem hafa áhuga á þessari fjölþættu atvinnugrein. Ferðaþjónustan er í örum vexti og hefur sífellt meiri áhrif á efnahag, umhverfi og samfélag okkar Íslendinga. Ferðapressan mun einnig flytja fréttir um fjölmargt tengt ferðaþjónustu og verða með fréttatengda pistla eftir því sem tilefni gefur til.

Það er von okkar sem að Ferðapressunni stöndum að hún verði vettvangur fyrir vandaða umfjöllun og að hún verði jafnframt leiðandi í umfjöllun um ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðapressan varpi ljósi á ýmsar hliðar ferðaþjónustu, sem ekki eru áberandi í dægurmálum en hafa mikla þýðingu fyrir vöxt greinarinnar og viðgang. Ferðapressan verði farvegur fyrir fræðslu, greiningar, áhugaverða fleti, nýjungar, erlenda strauma og stefnur. Einnig verður pláss fyrir málefni dagsins og alls kyns hugleiðingar, sem gætu vakið áhuga og komið að gagni við stefnumótun, markaðsmál og almennan rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og annarra í tengdum greinum.

F.h. ritstjórnar
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

*Ljósmynd eftir Thomas Linkel