Island, Papageientaucher, Puffin, Vogel

Mennt er máttur – líka í ferðaþjónustu

Höfundur: Svanbjörg Ólafsdóttir, nemi í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum

Í byrjun október var haldin  ráðstefna með yfirskriftinni „Menntun framtíðarleiðtoga í ferðaþjónustu“ sem ferðamáladeildHáskólans á Hólum stóð fyrir. Þarna voru mörg góð erindi um gildi og stöðu menntunar í ferðaþjónustu á Íslandi. Þar kom skýrt fram að mikilvægt er fyrir ferðaþjónustuna að efla menntun og auka fræðslu innan greinarinnar, til að auka skilning á greininni í heild, efla gæði, arðsemi og stuðla að sjálfbærni. Samhljómur var um að með aukinni menntun myndi fagmennska aukast sem kæmi öllum til góða hvort sem um væri að ræða sjálfa ferðamennina, þá sem starfa innan ferðaþjónustunnar sem og land og þjóð.

Samkvæmt geiningu KPMG á stöðu menntunar í ferðaþjónustu á Íslandi er framboð menntunar fyrir greinina ágætt en raunveruleikinn er sá að fjöldi fagmenntaðra starfsmanna innan ferðaþjónustunnar hefur ekki náð að halda í við þá miklu fjölgun ferðamanna sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Það er því ljóst að snúa þarf vörn í sókn.

Ferðaþjónusta og ferðamenn                         

Ferðaþjónusta snýst í grunninn um að þjónusta fólk í fríi. Ferðamenn hafa áhrif á daglegt líf okkar, hvort sem við störfum beint eða óbeint við ferðaþjónustu eða bara alls ekki. Ferðaþjónusta er atvinnuskapandi og ekki nóg með það, hún skapar afleidd störf. Ferðaþjónusta eykur álag á alla innviði, allt frá vegakerfi til heilbrigðisþjónustu. Ferðaþjónustan skilar gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Ferðaþjónustan eykur álag á náttúuauðlindir og getur breytt ásýnd staða. Af þessari litlu upptalningu má sjá að að mörgu þarf að hyggja.

Mannauður og menntun

Starfsheitin innan ferðaþjónustunnar eru nær óteljandi, má þar nefna leiðsögumenn, ferðaskipuleggendur, vísindamenn, bílstjóra, móttökustjóra, viðskiptafræðinga, viðburðastjórnendur, matreiðslumenn, ferðamálafræðinga, flugmenn, landverði, markaðsfræðinga og ræstitækna svo örfá dæmi séu tekin.

Til að ferðaþjónustutannhjólið virki eins og best verður á kosið þurfa öll hjólin að vera vel smurð. Ferðaþjónustutannhjólið er ekki einfalt og látlaust, síður en svo! Það er engin spurning að til að byggja upp og starfrækja eins stóra atvinnugrein og ferðaþjónustan er orðin, þá skiptir mannauðurinn sköpum og það á öllum sviðum!  Víðtæk vitneskja, skilningur, kunnátta og geta þarf að vera til staðar.  En hvað þurfum við að vita, skilja, kunna og geta?

Hér eru nokkur dæmi:

 • Hvað er það sem ferðamaðurinn vill, vonar og væntir?
 • Hvernig er best að mæta þessum þörfum?
 • Hvaða áhrif hefur ferðamaðurinn á staði, innviði og heimamenn?
 • Hvað eyðir hann miklum peningum og í hvað?
 • Hvernig getum við fengið ferðamanninn til að ferðast sem víðast um landið?
 • Hvernig er best að koma í veg fyrir að þolmörkum verði náð?
 • Hvernig er sjálfbærni í ferðaþjónustu náð?
 • Hvernig sköpum við jákvætt viðhorf og gott fordæmi?
 • Hvernig má ná sem bestri arðsemi og hagkvæmni í greininni?
 • Hvernig tryggjum við öryggi og almenna fagmennsku?
 • Og þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að mennta fólk til góðra verka.

Hvað getum við gert?

KPMG bendir á að þó að námsframboðið sé ágætt, þá er það frekar sundurleitt, að samfellu vanti og að fræðsluaðilar þurfi að tala saman. Eins þurfi greinin sjálf að skilgreina þarfir til námsframboðs og eiga betra samtal við menntastofnanir og að allir hagsmunaaðilar þurfi að koma saman til að skapa heildar- og framtíðarsýn í þessum málum.

Það gæti þurft að auðvelda aðgengi að námi sem og að nemendur fái nám metið á milli námskerfa. Óformlegt nám þyrfti til að mynda að einhverju leiti vera metið inní formlega kerfið og þar með yrði skapað hvetjandi kerfi fyrir þá sem eru komnir af stað, til að afla sér frekari menntunar.

Fyrirtæki þurfa að hugsa til framtíðar og sækjast eftir sérhæfðu fólki og/eða setja fræðsluáætlanir inní stefnumótanir, til að hámarka arðsemi og framlegð sína.

Að mínu mati má ekki gleyma einu mikilvægasta tannhjólinu, ungmennunum sem ráða sig í vertíðarvinnu  á sumrin. Það þarf að gera ráð fyrir þjálfun þeirra í formi námskeiða o.þ.h.  En fyrst og fremst þurfa allir hagsmunaaðilar að gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar fyrir greinina.

Allt í rétta átt

Þann 12. október sl. var undirrituð yfirlýsing um skilning og sammvinnu að innleiðingu hæfniramma um íslenska menntun. Þeir sem undirrituðu þessa yfirlýsingu voru: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Samtök  atvinnulífsins (SA), BSRB, Kvasir, Leikn, Bandalag háskólamanna (BHM), Landssamtök íslenskra stúdenta og Samband íslenskra framhaldsskólanema.  Hæfnirammanum er ætlað að endurspegla vaxandi hæfnikröfur í formlegu sem og óformlegu námi á Íslandi. Markmiðið er að gera menntakerfið gagnsærra og óformlega menntun sýnilegri sem verði hvetjandi til að auka hæfni til hagsbóta fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild. Hér má sjá þessa yfirlýsingu.

Að lokum

Ýmislegt skemmtilegt og gagnlegt nám er í boði og hvet ég alla, ekki síst atvinnurekendur í ferðaþjónustu, til að að kynna sér það. Á fræðsluvef SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar má finna flest allt sem í boði er þegar kemur að námskeiðum, námsleiðum, þjálfun, endurmenntun og þess háttar sem gagnast getur þeim sem starfa innan ferðaþjónustunnar.

Allir vilja þekkja þjóð sem er vel að sér til munns og handa (frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands).

Eftirfarandi heimildir voru nýttar við greinaskrifin:

Betur vinnur vit en strit – eða hvað?, Greining menntunar í ferðaþjónustunni. Unnið 2014, af KPMG fyrir Ferðamálastofu. http://www.ferdamalastofa.is/static/files/ferdamalastofa/Frettamyndir/2014/november/betur_vinnur_vit_en_strit.pdf

http://www.hi.is/vigdis_finnbogadottir

http://www.saf.is/fraedsluvefur-saf/

http://www.saf.is/undirritun-yfirlysingar-um-haefniramma-um-islenska-menntun/

 • Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar
 • Mynd eftir Thomas Linkel