Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Mannauðurinn – hin styrka stoð ferðaþjónustunnar

Þessa dagana eru nemendur ferðamáladeildar Háskólans á Hólum að ganga frá lokaverkefnum sínum í BA náminu. Viðfangsefnin eru margvísleg að þessu sinni og endurspegla vel þau fjölbreyttu viðfangsefni sem uppbygging ferðaþjónustu kallar á hverju sinni: upplifun landeiganda af göngufólki, uppbygging stangveiðiferðaþjónustu, notkun samfélagsmiðla við val ákvörðunarstaðar, viðhorf heimamanna á einstaka áfangastöðum til uppbyggingar ferðaþjónustu, áhrif fjölgunar ferðamanna á upplifun björgunarsveitamanna og viðhorf stjórnenda í afþreyingarfyrirtækjum til menntunar starfsfólks svo að einhver dæmi séu nefnd.

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur margfaldast að stærð og umfangi undanfarinn áratug og mikilvægi greinarinnar fyrir þjóðarbúið er nú öllum ljóst. Þessum vexti fylgja margvíslegar áskoranir en um leið blasa við ótal spennandi tækifæri til uppbyggingar og nýsköpunar. Það er skemmtilegt, ögrandi en umfram allt lærdómsríkt verkefni að taka þátt í uppbyggingu náms og rannsókna í ferðamálafræði undir þessum kringumstæðum. Það er hins vegar ekki einfalt verkefni og að því þurfa margir að koma. Í því samhengi þarf gagnkvæm virðing að ríkja og samskipti milli fræðasamfélagsins, stoðkerfisins og stjórnvalda þurfa að vera opin og góð. Með öðrum orðum, við þurfum á öflugu samstarfi að halda milli fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og opinberra stofnana í anda triple helix hugmyndafræðinnar. Með því móti er lögð áhersla á að öll þróun og uppbygging ferðaþjónustunnar hér á landi byggi á grunni þekkingarsköpunar og auknum skilningi á greininni og samspili hennar við land og þjóð. Við þurfum menntaða einstaklinga sem taka virkan þátt í þróun ferðaþjónustu og eru stöðugt að leita sér að frekari þekkingu og skilningi á því hvernig við getum sem best nýtt okkur landsins gæði án þess að á höfuðstól þeirra sé gengið og skapað skilyrði fyrir lífvænlegt samfélag um land allt. Við þurfum að leita allra leiða til þess að efla mannauðinn okkar með fjölbreyttum hætti þannig að við getum tekið á móti gestum okkar með reisn sem byggist á virðingu fyrir umhverfi okkar og samfélagi.

Höfundur
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel