Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Má gera hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er ?

Árið 1948 ritaði meistari Kjarval eftirfarandi orð í Morgunblaðsgrein.

„íslendingar hafa sín próf úr náttúrunni, engu síður en aðrar þjóðir þó á sinn sjerstæða hátt. í þetta skiptið einkennir það samtíð vora, að við höfum ennþá nóg að borða, og gætum við því okkur að meinalausu tekið dálítið af eðli okkar undir smásjána, athugað gírugheitin, grimmdina, vanahvatirnar og framfærsluhugsun vora og gjörvan hag okkar við náttúruna, og við ættum að gera þetta að okkar vísindagrein, að friða eitthvað það fyrir sjálfum oss, sem er okkur annars mikils virði“. 

Undanfarin ár hefur orðið stóraukning í framboði af allskonar afþreyingu á vélknúnum farartækjum, á láði, lofti og legi. Mótórhljól, fjórhjól, snjósleðar, hraðbátar, sjó- og vatnaþotur, þyrlur og flugvélar.

Þörfin fyrir þessa afþreyingu hefur vaxið hratt og fyrirtækjum fjölgað mikið í samræmi við fjölgun ferðamanna. Það er því orðin spurning hvort ekki sé komin tími til að greinin sjálf og fyrirtækin í þessum þjónustugeira taki sig saman og fari að ræða umgengi um viðkvæma náttúru landsins og tillitssemi við aðra afþreyingu sem ekki byggir á vélknúnum farartækjum. Einhliða boð og bönn frá hinu opinbera eru ekki líkleg til árangurs eða sáttar innan greinarinnar því er mikilvægt að ræða þessi má af hispursleysi og heiðarleika til að finna sameiginlegan flöt á framtíð þessarar afþreyingar sem byggir á sjálbærri nýtingu í sátt við samfélagið okkar.

Það getur verið gaman að komast nálægt, fuglabjörgum, selum í látrum, hvölum og fuglum á varpsvæðum, fara á ofsaferð um vötn, árfarvegi eða úti á sjó, en erum við með þessu háttarlagi að hafa tillitssemina í hávegi ? Erum við kannski fyrst og fremst að þjóna gestunum okkar með þeim hætti sem okkur þykja spennandi eða skemmtilegir í stað þess að útskýra hvers vegna við förum ekki allt of hratt eða of nálægt, þ.e. að bera virðingu fyrir dýralífi og öðrum gestum þessa lands með því að fræða ferðamennina um það hvers vegna við viljum fara varlega og halda okkur í hæfilegri fjarlægð. Það er ekki sjálfgefið að gestirnir okkar fái notið náttúrunnar um ókomin ár ef við förum ekki varlega í umgengni okkar. Það er fátt orðið eftirsóknarverðara en kyrrð og friður, útivera í friði og ró er orðin hluti af lífsgæðum okkar sem við viljum helst ekki fórna.

Það liggur fyrir að ALLIR þættir sjálfbærar nýtingar verða að vera til staðar til að ferðaþjónustan og afþreyingin fái dafnað um ókomin ár, það verður að ganga varlega um auðlindina hver sem hún er, samfélagið okkar verður að vera sátt við nýtingarleiðina og svo er auðvitað nauðsynlegt að efnahagsleg áhrif af nýtingunni séu jákvæð.

Tillitsemi er lykilorðið að mínu mati bæði gagnvart náttúrunni, dýralífinu og samfélaginu okkar. Förum því varlega, gerum það vel og af virðingu. Höfum orð Kjarvals í huga og gætum að auðlindinni okkar ALLTAF og ALLSSTAÐAR. „Það sem var, er ekki og það sem er, verður ekki“.

Höfundur
Ásbjörn Björgvinsson

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel