4_kronanogferdamennirnir

Krónan og ferðamennirnir

Höfundur
Hrönn Greipsdóttir

20-30% árleg aukning fjölda ferðamanna til landsins frá árinu 2011 er staðreynd og líklega heimsmet sem ekki fellur í flokkinn „sé miðað við höfðatölu“.

Hvort sem atvinnugrein vegnar vel eða illa er mikilvægt að greina þá þætti sem helst hafa áhrif á framgang hennar. Þegar horft er til velgengni greinarinnar síðastliðin fimm ár hafa margar breytur verið nefndar sem áhrifavaldar. Það er t.d. engum blöðum um það að fletta að gosið í Eyjafallajökli, markaðsherferð Íslandsstofu, norðurljósin, aukinn áhugi á Norðurslóðum og ævintýraferðum eru allt atriði sem stutt hafa verulega við þessa aukningu. Þetta eru hins vegar breytur sem erfitt er að mæla áhrifin af, einkum þar sem um huglæga þætti er að ræða.

Ein er sú breyta sem almennt hefur áhrif á magn eftirspurnar en það er verðlag og áhrif þess þáttar má auðveldlega sýna fram á.

Á myndinni hér að neðan má sjá á blárri línu þróun fjölda ferðamanna frá árinu 1991 til 2015 . Þróunin hefur verið sú að á aldarfjórðungi hefur fjöldinn vaxið jafnt og þétt með smávægilegum dýfum þar til kemur að árinu 2011 að línan er næstum lóðrétt upp á við. Græna línan sýnir þróun vísitölu gengisskráningar frá upphafsárinu 1991 (vísitala = 100) og sést þar glögglega frjálst fall íslensku krónunnar frá miðju ári 2007 og áframhaldandi veiking til ársins 2012 þegar botninum var náð.

fjoldiferdamanna

Þrátt fyrir hagstæðara verðlag fyrir ferðamenn hérlendis strax síðari hluta árs 2008 þá er það ekki fyrr en 2011 að ferðaþjónustan springur út svo um munar. Þetta er um margt athyglisvert og sýnir fram á að breyturnar fylgjast ekki að í tíma enda vinnur ferðaþjónustan 12-18 mánuði fram í tímann. Það sem truflaði þróunina þó enn meira var það sem ekki verður ráðið við og það var gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Vöxturinn sem hlaut að gerast með gengisfalli krónunnar tafðist en á móti má segja að þessi töf og sú athygli sem gosið fékk á heimsvísu hafi margfaldað vöxtinn sem á eftir kom. Rúsínan í pysluendanum voru svo vel heppnaðar aðgerðir í markaðsmálum sem enn frekar ýttu undir vaxtarhraðann.

Sé fylgni á milli þessara tveggja þátta þ.e. breytingu á fjölda ferðamanna og gengisskráningar íslensku krónunnar reiknuð, fæst fylgni upp á 0,83 sem er veruleg en því nær 1 sem fylgnin er því tengdari eru breyturnar sem til skoðunar eru. Fylgni á bilinu 0,5 – 0,6 telst áhugverð en allt umfram 0,7 telst óyggjandi fylgni.

Hér er ekki um hávísindalega greiningu að ræða og hægt væri að kafa enn dýpra og skoða þær breytur sem hafa áhrif á gengisskráningu og þar með verðlag í landinu. Hitt er annað mál að rétt eins og veiking krónunnar hefur jákvæð áhrif á eftirsurn er styrking krónunnar afar líkleg til að hafa neikvæð áhrif og þar með draga úr henni.

Það er mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar hafi mótað sér stefnu í verðlagningu sem er líkleg til að skila árangri til lengra tíma litið.  Verðlagning innan atvinnugreinarinnar er í raun ekki einkamál hvers fyrirtækis þar sem orðsporsáhætta af vanhugsaðri verðstefnu er veruleg.  Að sjálfsögðu eiga fyrirtæki alltaf að setja sér markmið um að skila vel viðunandi hagnaði og að fjárfestingar skili væntri ávöxtun en það að nýta sér mikla eftirspurn til þess að hækka verð langt umfram það sem eðlilegt má telja, er ferðalag til einnar nætur.

Höfundur
Hrönn Greipsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel