Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Komugjöld eða gistináttagjald

Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um mikilvægi þess að ferðamenn greiði (meira) fyrir að heimsækja Ísland. Rætt hefur verið um náttúrupassa, gistináttagjald, komugjöld, bílastæðagjöld, salernisgjöld og fleira í því samhengi. Háværar raddir heyrast um það að það verði að hafa einhverjar tekjur af þessum blessuðu ferðamönnum. Í þessum pistli ætla ég algjörlega að líta framhjá þeirri staðreynd að ferðamenn greiða nú þegar tugi milljarða í beinar og óbeinar skattgreiðslur og einnig ætla ég að líta framhjá þeirri staðreynd að gististaðir eru nú þegar að innheimta gistináttaskatt af gestum þeirra fyrir hundruði milljóna króna á ári.

Þess í stað ætla ég að bera saman þá tvo kosti sem mest hefur verið rætt um undanfarið en það eru komugjöld og gistináttaskattur.

 

Gistináttaskattur

Ekki allir ferðamenn sem greiða það:

 • Gistináttaskattur er ekki rukkaður í ólöglegri heimagistingu.
 • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af þeim sem gista hjá vinum og ættingjum.
 • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af ferðamönnum sem gista í ákveðnum skálum á hálendinu.
 • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af þeim síaukna fjölda ferðamanna sem leigja sér húsbíla og gista í þeim utan tjaldsvæða.
 • Ef tveir ferðast saman og gista alltaf í tveggja manna hótelherbergi þá er bara rukkað eitt gjald enda ber að rukka fyrir gistieiningu sem í þessu tilfelli er herbergið.

Nú þegar er verið að innheimta gistináttaskatt.

 • Í desember 2011 var samþykkt að innheimta gistináttaskatt og hafa því ferðamenn greitt hann frá 1. janúar 2012.

Óánægja SAF með gistináttaskatt.

 • Stjórn SAF, Samtök Ferðaþjónustunnar, samþykkti ályktun í desember 2011 þar sem gistináttaskattinum var mótmælt harðlega enda taldi stjórn SAF að skatturinn gæti ýtt undir svarta atvinnustarfsemi og einnig var það gagnrýnt að skatturinn næði ekki til allra ferðamanna. Þetta tvennt hefur nú orðið raunin.
 • Á félagafundi SAF árið 2014 kusu félagsmenn SAF á milli sjö mismunandi leiða sem komu til greina við að innheimta gjöld af ferðamönnum. Þar var gistináttagjald í fjórða sæti en komugjöld voru í fyrsta sæti.

Komugjöld

Leggst á alla farþega um íslenska alþjóðaflugvelli og hafnir.

 • Hægt er að innheimta gjöld á alla farþega og svokallaða transit farþega.
 • Með þessu móti er hægt að láta alla ferðamenn sem koma til landsins greiða gjaldið, einnig farþega skemmtiferðaskipa og Norrænu.

Lögleg gjöld

 • Noregur er að byrja að innheimta komugjöld og er áætlað að það verði um 1.200 íslenskar krónur á farþega.
 • Bresk stjórnvöld hafa rukkað inn svokallaðan flugfarþegaskatt (air passenger duty) undanfarin ár. Skatturinn er um 13 evrur eða 1.800 kr.
 • Þjóðverjar hafa líka rukkað sérstakt brottfarargjald sem er á bilinu 7,5 – 42 evrur á farþega.
 • Fleiri þjóðir hafa gert þetta, svo sem Austurríki og Írland.
 • Samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni SAF brjóta komugjöld ekki í bága við EES samninginn skv frétt í Kjarnanum þann 17. desember 2014.

Einföld gjöld

 • Einfalt að innheimta með flugmiðanum og 100% skilvirkni.
 • Komugjöld þurfa ekki að vera há þar sem allir ferðamenn greiða þau.

 

Ef rukkað væri hóflegt gjald, sem ólíklega hefði áhrif á eftirspurn, má gera ráð fyrir að komugjöld hefðu skilað ríkinu 2,4 milljarða í tekjur á síðasta ári. Það miðast við að 500 krónur myndu bætast við hvern farmiða. Ef þessi leið hefði verið farin 2011 í stað gistináttaskatts hefði hún skapað tekjur upp á 8,5 milljarða í stað þeirra rúmu 2,5 milljarða sem gistináttaskattur hefur skilað.

Að lokum, þrátt fyrir að ég hafi lofað öðru í upphafi pistilsins, þá verð ég að furða mig á því að í ljósi þess hve miklar tekjur ferðaþjónustan skapar að það sé þörf á sérstökum gjöldum til viðbótar. Af hverju þarf sérstök gjöld eða sérstakan skatt á þessa atvinnugrein sem hefur ekki þurft á aðrar atvinnugreinar?

Höfundur
Geir Gígja

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel