5_islandekkiitisku

Ísland er ekki í tísku

Því heyrist oft fleygt þessa dagana að Ísland sé í tísku úti um allar jarðir. Allir vilji koma til Íslands og að land og þjóð séu að drukkna í ferðamönnum. Komur erlendra stórstjarna upp á síðkastið þykja styða þessa fullyrðingu. En ekkert er fjarri lagi. Setjum hlutina í samhengi og tökum mið af komum erlendra gesta (international tourist arrivals) til hinna ýmsu landa árið 2014. Þá kemur í ljós að Ísland er eitt minnsta ferðamannaland í vestrænum heimi. Það eru aðeins örfá lönd sem taka á móti færri gestum en Íslendingar. Það eru þá einkum þjóðarbrot gömlu Júgóslavíu og Sovétríkjanna og dvergríki á borð við Lichtenstein, San Marino og Monaco. Það eru önnur lönd sem njóta margfalt meiri hylli en Ísland og má með réttu halda fram að séu í tísku. Sum þeirra eru meira að segja búin að vera svo lengi í tísku, að þau eru orðin sígild ferðamannalönd. Þetta á við um lönd á borð við Frakkland, Spán og Ítalíu.

Komur erlendra ferðamanna 2014 (UNTWO, Tourism Highlights 2015)

Land Fjöldi erlendra ferðamanna (international tourist arrivals)
Frakkland 83.700.000
USA 74.800.000
Spánn 65.000.000
Kína 55.600.000
Ítalía 47.700.000
Svíþjóð 10.700.000
Ísland 998.000

En hvað er Ísland þá, ef það er ekki í tísku? Jú, það er land, þar sem ferðaþjónusta er í örum vexti – hefur undanfarin ár vaxið hlutfallslega miklu meira en í flestum löndum Evrópu. Hér er lykilorðið hins vegar hlutfallslega. Ísland hefur notið góðs af almennum vexti ferðaþjónustu á heimsvísu sem og mjög hagstæðum skilyrðum sem sköpuðust þegar gengi íslensku krónunnar hrundi í kjölfar bankahrunsins og þegar Ísland fékk ókeypis umfjöllun úti um allan heim meðan á gosinu í Eyjafjallajökli stóð. Alveg burtséð frá öllu markaðsstarfi, sem jú hafði verið stundað nokkuð markvisst í einhverja áratugi á undan, en með mjög takmörkuðum árangri. Ísland er í tísku er galað á hornum og á sama tíma heyrast kveinstafir um að ferðamenn séu orðnir alltof margir. Það má vera að umfang ferðaþjónustu hafi aukist meira á stuttum tíma heldur en okkur er hollt. En eftir stendur að ferðamenn sem heimsækja Ísland eru ekki margir og Ísland er ekki í tísku.

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel