Frá Malarrifi á Snæfellsnesi

Hvar er stefnan?

Í dag vilja líklega fæstir hugsa þá hugsun til enda hver staðan væri í landinu ef sá vöxtur sem hefur átt sér stað innan ferðaþjónustunnar hefði ekki komið til eftir hrun. Umfang atvinnugreinarinnar hefur vaxið langt fram úr björtustu vonum, hún er orðin sú stærsta í landinu og skiptir þjóðarbúið meira en miklu. Við slíkar aðstæður er þörf á að stjórnvöld marki skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem geri kleift að þróa og betrumbæta þar sem þörf er á, bregðast við nýjum aðstæðum, hafi skýra sýn.

Það þarf líka að gæta þess að varðveita þetta einstaka land sem við höfum fengið í arfleifð og náttúru þess, það er okkar ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum, það er í senn fjöreggið og söluvaran. Einmitt á þessum tímapunkti þar sem vöxturinn hefur verið hvað hraðastur, álagið á landið og innviði þess hvað mest og ágreiningsefnum fjölgar, er aðkallandi að settar séu skýrar línur og greinin fái þann stuðning sem hún þarf frá stjórnvöldum. Eiginlega má furðu sæta að krafan um sérstakt ferðamálaráðuneyti skuli ekki vera orðin háværari, oft hafa verið stofnuð ráðuneyti um minna en það sem ferðaþjónustan stendur fyrir í dag.

Stjórnlaus fleyta
Því hafa það verið mikil vonbrigði að fylgjast með því athafnaleysi sem ríkt hefur síðustu ár af hálfu æðsta stjórnanda ferðamála, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún sinnir vissulega öðrum málaflokkum utan ferðaþjónustunnar, en staðreyndin er samt sú hún situr þar í brúnni og fleytuna rekur stjórnlaust. Miklum tíma og fjármunum var varið í alræmdan náttúrupassa sem gat aldrei orðið neitt annað en steinbarn. Og stofnun sem ber heitið „Stjórnstöð ferðamála“ hefur verið komið á koppinn. Það er óskrifað blað hverju hún skilar í framtíðinni, og ekki skal lasta að óreyndu. En stofnunin er nýbúin að skila frá sér skýrslu um salernismál ferðamanna þar sem fram kom að þau mál væru ekki í góðu ástandi. Ekki þarf að taka fram að sú niðurstaða er staðreynd sem er öllum sem vinna við ferðaþjónustu, sérstaklega bílstjórum og leiðsögumönnum, er mætavel kunnugt um fyrir margt löngu. Ekki vil ég gera lítið úr þeirri vinnu sem á sér stað innan Stjórnstöðvar ferðamála, þar vinnur örugglega mikið af hæfu fólki, en hingað til hef ég ekki fundið mikið fyrir áhrifum þaðan á mínu skinni sem ökuleiðsögumaður.

Verkefnin óþrjótandi
Ekki hefur aðkallandi verkefni skort á þessu kjörtímabili, álitamálin og deiluefnin tengd ferðaþjónustunni hafa sprottið upp hvert á fætur öðru, og hefur umræðan oft dregið upp ótrúlega neikvæða mynd af atvinnugreininni að ósekju. Nægir að nefna gjaldtöku á meintum og sannanlegum einkalöndum, aðgengi ferðamanna að salernum, umferð húsbíla, skattlagningu bílaleigubíla, þá staðreynd að ekki er innheimtur virðisaukaskattur í Bláa lónið, löggildingu starfsréttinda leiðsögumanna, vegamál, uppbyggingu göngustíga og bílastæða o.s.frv. Það vantar margt í þessa upptalningu. Og ekki þarf að fletta neinum blöðum um það að sveitarfélögin þurfa að fá til sín stærri bita af ferðamannakökunni svo þau geti hlúð að þeim svæðum sem mest eru heimsótt og eru þeim dýrmæt. Í dag er staðan sú að sveitarfélögin þurfa að bera aukinn kostnað og meira álag, en fá lítið sem ekkert til sín af sívaxandi köku, það einfaldlega gengur ekki upp.

Húsbílar, skúravæðing og eldsneytisgjald
Ekki er gott að segja hvers vegna aðgerða- og stefnuleysið er svo áberandi. Kannski er ráðherrann haldinn þeirri trú að „markaðurinn eigi að vera frjáls og afskipti ríkisvaldsins með minnsta móti“ og því best best að skipta sér sem minnst af og sjá hvort þetta lagist ekki bara af sjálfu sér. Vissulega þarf markaðurinn sitt frelsi og ferðaþjónustufyrirtækin svigrúm til að vaxa og dafna, við viljum að ferðaþjónustan skili hagnaði og skapi okkur gott líf. En við eigum og þurfum að byggja upp atvinnuveg til framtíðar, síldarævintýrið kemur ekki aftur og það sama gæti gerst í ferðaþjónustunni ef við vöndum ekki til verka. Og þar kemur að þeim eða þeirri sem stendur í brúnni, það þarf að setja stefnu og fylgja henni. En það er því miður ekki raunin. Hvaða samræmi er t.d. í því að í einum þjóðgarði (Þingvöllum) hefur þurft að borga fyrir salernisaðstöðu en ekki í þeim næsta? (Skaftafelli). Nú er nýbúið að koma málum þannig fyrir að ekki þarf að borga fyrir að létta sér á Þingvöllum en það eru komnir gjaldmælar þar á bílastæðin þess í stað. Er ekki einnig löngu augljóst að það þarf að setja reglur um umferð húsbíla? Á sumrin fara um vegina langar lestir, 10-15 bílar sem keyra á 40-50 km. hraða. Ekki þarf að fjölyrða um slysahættuna sem þetta skapar. Viljum við svo marga húsbíla inn í landið, eru þeir að skila einhverju að ráði í þjóðarbúið? Þegar eftirminnilegar deilur stóðu sem hæst um gjaldtökur við Námaskarð og Geysi átti ráðherra einfaldlega að beita sér í þvi að sett yrðu samræmd lög og reglur um þau mál. Óvissan skemmir fyrir á öllum sviðum, og skúravæðing er ekki góð framtíðarmúsík fyrir atvinnugreinina og Ísland sem áfangastað þó að það megi vera draumsýn einhverra. Sama gildir um Jökulsárlónið og eignarhald á þeirri mikilvægu perlu, þar virðist stefnu- og athafnaleysið ráða för. Og hvað með hina síendurteknu umræðu um göngu- og bílastæði sem og salernin? Ráðherrann er nýbúin að útskýra fyrir okkur sem störfum við ferðaþjónustu að það verði að nýta betur það sem fyrir er, t.d. félagsheimilin. Má vera. En til að draga þetta saman í sem fæstum orðum þá eru þeir fjármunir sem þörf er á til að byggja upp ásættanlega aðstöðu til að taka á móti okkar ferðamönnum einfaldlega smámunir þegar horft er á hversu miklu þessir ágætu ferðamenn eru að skila í okkar ríkisskassa. Ný frétt segir frá þvi að ríkið fékk til sín 5 milljarða af eldsneytisgjöldum í fyrra einungis af bílaleigubílum. Það má byggja upp víða góða aðstöðu fyrir einn milljarð eða tvo. Og það skilar sér til baka! Gaman væri að sjá fleiri tölur um það sem þessir þurftafreku og útbíandi ferðamenn skila til okkar. Þessir fimm milljarðar frá bílaleigubílunum eru einungis lítill hluti.

Kínverjar í nestisstoppi á Borgarfirði eystra
Kínverjar í nestisstoppi á Borgarfirði eystra

Einstakt tækifæri
Því er það umhugsunaratriði og reyndar óskiljanlegt, hversu ómögulegt það reynist að setja það fé í uppbyggingu sem þarf, eða að ráðherra beiti sér fyrir því þar sem þörfin er hvað mest. Ekki þarf sérstaka skýrslu til þess, álagið er mest á Suðurlandi, frá Reykjavík að Jökulsárlóni, Mývatni og NA horninu. Vissulega er uppbyggingar þörf á fleiri stöðum en á fyrrgreindum stöðum kreppir skóinn mest að. Nú er það vissulega svo að það sem hefur hér verið talið upp er ekki allt á færi ráðherrans að ákveða upp á sitt einsdæmi, margt heyrir undir önnur ráðuneyti og stofnanir og hlutirnir taka oft tíma. Og ekki er verið að fara fram á að ríkið eða ráðuneytið geri allt sem gera þarf, langt í frá. En ráðuneytinu og ráðherra ber að setja rammann og skapa greininni lífvænleg skilyrði, ekki skilja hana eftir á vergangi. Ráðherrann er því einfaldlega að glutra niður einstöku tækifæri, því sjaldan og líklegast aldrei hefur uppgangur nokkurrar atvinnugreinar verið jafn mikill í Íslandssögunni og í ferðaþjónustunni síðustu ár. Og sjaldan þörfin verið jafn mikil fyrir sterka og skýra sýn af hálfu ráðherra sem berst fyrir og leiðir atvinnugreinina. Um allt land eru fyrirtæki og einstaklingar að vinna frábæra vinnu í uppbyggingu, héruðin og sveitirnar lifna aftur við því að ungt fólk sér möguleika á að búa í sinni heimasveit eða flytja heim aftur, vöxtur ferðaþjónustunnar hjálpar mannlífinu í landinu til að glæða og dafna. Ferðaþjónustan þarf á ráðherra að halda sem berst með okkur og fyrir okkur, hagsmunir ferðaþjónustunnar eru þjóðarhagsmunir. Ragnheiður Elín, þitt tækifæri er einstakt, nýttu það!

Höfundur
Dúi J. Landmark

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmyndir eftir Dúa J. Landmark