Ljósmynd eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur

Hugleiðing inn í sumarið

Með aukinni birtu og von um gott sumar kemur útilegu tilhlökkunin. Við hjónin festum kaup á gömlum tjaldvagni fyrir tveimur árum sem hefur glatt okkur mikið. Við erum nefninlega mjög upptekin af því að fara þangað sem veðrið er gott og vegalengdir skipta ekki máli ef við vitum af sumarblíðu á áfangastað. Við erum sumsé komin með sumarhús á hjólum sem gerir okkur kleift að elta sólina. Okkur var mikið í mun að nýta vagninn sem allra mest til að ná meðalverði næturgistingarinnar niður og höfum eytt miklum tíma og kílómetrum á vegum landsins.

Fjölgun ferðamanna hefur verið mikið í umræðunni, misjafnlega jákvæðri umræðu. Þeir eru allt í einu allstaðar, á tjaldstæðum eða það sem verra er, að leggja húsbílunum sínum hvar sem er, á einkalóðum og bílastæðum. Það fer mikið fyrir þeim á þjóðveginum og mikla aðgæslu þarf við akstur. Iðulega og fyrirvaralaust eru bílar stöðvaðir og út koma ferðamennirnir ,án tillits til annarrar umferðar og taka myndir, af því er virðist af öllu sem fyrir verður.

Eiginmaður minn er frekar ör bílstjóri og upphrópanir tíðar þegar þessar skyndilegu bifreiðastöðvanir verða; „hvað er maðurinn að hugsa, hvernig dettur honum í hug að stoppa hér? Engin útskot og ekki neitt“ . Það er einmitt mergur málsins. Útskot á þjóðvegum eru fá og langt á milli, vegirnir eru rétt nægilega breiðir til að bílar geti mæst með góðu móti hvað þá stansað.

Það verður að vera eitt af stæstu baráttumálum okkar, sem viljum ferðast um landið fagra, að krefjast þess að ríkið bæti vegakerfið hið bráðasta, annars er hætta á að ferðalög verði hæg og fyrir þá sem sitja hjá örum bílstjórum, hreinlega stressandi.

Glöggt er gests augað er gjarnan sagt og það á svo sannarlega við um ferðamennina. Þeir hægja vissulega á ferð manna um landið en um leið opna þeir augu okkar enn frekar fyrir fegurð Íslands. Mér finnst mjög merkilegt og skemmtilegt að skoða það sem ferðamönnum þykir þess virði að hætta lífi og limum fyrir, það er nefninlega jafn fjölbreytt og ferðamenn eru margir. Það veitir mér nýja sýn, það sem áður var hversdagslegt og ekki sérstaklega virt viðlits er orðið nýstárlegt og fagurt.

Ferðamennirnir okkar eru vissulega fyrirferðamiklir, enda óhjákvæmilegt þegar þeir eru fjórfalt fleiri en við heimamenn. Þeir hinsvegar halda uppi hagvextinum og skila það miklu inn í þjóðarbúið að við eigum að sjá sóma okkar í því að þeir, eins og við, geti ekið um þjóðvegi landsins án þess að stofna sér og öðrum í hættu.

Ég hlakka til að renna af stað út á land með tjalvagnsgarminn minn og upplifa nýtt útsýni í gegnum augu ferðamannanna okkar sem auðga Ísland svo mikið. Gleðilegt sumar.

Höfundur
Ingibjörg Ólafsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur