Mynd eftir Bjarnheidi Halls.

How do you like Iceland?

Hér fyrr á árum, þó ekki fyrir svo mjög löngu, spurðu innfæddir erlenda gesti gjarnan og oft þessarar spurningar. “How do you like Iceland”?   Oft voru fyrirmenni gripin strax á Reykjavíkurflugvelli þegar þau komu niður stigann úr flugvélinni og þessari spurningu dembt í andlitið á þeim um leið og þau drógu að sér fyrsta andann á íslenskri grundu. Þessi spurning sýndi einlægni þjóðar, sem ennþá finnst spennandi og merkilegt að útlendingar komi í heimsókn og þar sem það skiptir miklu máli hvert svarið er. Ef það var jákvætt, þá fylltist spyrjandinn stolti fyrir hönd lands síns og þjóðar. Einhvern tímann á leiðinni úr frumbernsku ferðaþjónustunnar og þar til hún fór að ná einhverjum þroska, fór það að þykja hallærislegast í heimi að spyrja þessarar spurningar. Þetta er álitin klisja og þykir í besta falli bjánalegt að spyrja þessarar spurningar, þar sem mönnum er stillt upp við vegg og nánast píndir til að segja eitthvað jákvætt um Ísland. Þetta er sem sagt bannað núna og okkur á að vera slétt sama hvort útlendingum “líki við” Ísland, eða ekki. Enda svo mikið af þeim hérna. Frægu fólki og fyrirmennum líka. En stöldrum aðeins við. Er þetta virkilega hallærislegt?

Fyrr í þessum mánuði var ég stödd í Liverpool á Englandi. Í Liverpool býr tæp half milljón manna og þangað koma árlega um þessar mundir um 5 milljónir ferðamanna og u.þ.b. 52 milljónir dagsferðamanna. Í verslun einni spurði mig ung afgreiðslukona hvaðan ég kæmi og hvað ég ætlaði að dvelja lengi í Liverpool. Síðan spurði hún mig: “And how do you like Liverpool”? Ég varð hissa en hlýnaði um hjartarætur og svaraði sannleikanum samkvæmt að mér fyndist Liverpool dásamleg borg. Ég er búin að vera hugsi yfir þessu síðan ég kom heim. Það má vera að við séum hætt að spyrja þessarar spurningar eins oft og áður – en við erum hins vegar alltaf að spyrja hennar á annars konar formi. Sem dæmi má nefna að Ferðamálastofa spyr hennar formlega í landamærakönnun, Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar spyr hennar úti um allt land, mörg ferðaþjónustufyrirtæki eru með reglulegar kannanir meðal viðskiptavina sinna, þar sem kjarninn er sá sami.

Við viljum sem sagt fyrir alla muni vita hvort gestum okkar líkar landið og þjónustan sem er í boði. Niðurstaða mín er sem sagt sú, að það sé bara alls ekkert að því að spyrja gesti “How do you like Iceland”? Það sýnir að okkur er ekki sama og að við viljum taka vel á móti þeim. Ég er viss um að þeir hafa síður en svo neitt á móti því að svara spurningunni, upplifa sig þá velkomna á landinu, að við höfum áhuga á skoðun þeirra og viljum að þeim líði vel hjá okkur. Svo getum við örugglega lært eitthvað af svörunum, ef við erum tilbúin til að hlusta. Ég get því ekki gert annað en hvatt alla til að hverfa aftur til fortíðar og spyrja sem oftast “How do you like Iceland?”.

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*M
ynd eftir Bjarnheiði Hallsdóttur