Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Hinn dreifði ferðamaður

Já, það er bóndasonurinn að austan sem ritar og nú stendur yfir í “sveitinni” dreifing áburðar með áburðar- og skítadreifurum með tilheyrandi skítalykt. Mikilvægt er að rétt sé staðið að dreifingu og þekking sé á verkefninu til þess að fá sem besta uppskeru af öllum túnum bóndans, jú til að tryggja gæðaafurð í sem mestu magni.

Eftir að ég hóf afskipti af ferðaþjónustu fyrir um 25 árum, fyrst samhliða öðrum vetrarstörfum og síðan einhliða, reyndi ég að átta mig á hvaða atriði það væru sem hefðu áhrif á gæði ferðaþjónustu og þá fjölda þeirra ferðamanna sem koma á ákveðna staði á landsbyggðinni.
Ég er ennþá að vinna í þessari greiningu en nokkrar staðreyndir úr þessari óvísindalegu nálgun eru samt til staðar og þekkingin eykst með hverju árinu. Þá hef ég byggt mína vinnu innan ferðaþjónustunnar, samfélaga og í uppbyggingu fjölskyldufyrirtækisins á þessari hugmyndfræði og greiningu. Niðurstaðan og ákvörðun um framkvæmdir og uppbyggingu hafa ef til vill ekki alltaf verið exceltækar eða staðist hagnaðarvæntingar bankastofnana en skilað að mestu því sem væntingar mínar hafa staðið til í gæðum og magni. ( Hver er þessi Magni ?)

Hver dreifði ferðamanninum ?
Á þann fjarlæga áfangastað Borgarfjörð eystra komu um fimmtíu þúsund ferðamenn árið 2015 og 95% þeirra í júní, júlí, ágúst. Áætla má að um 20% þeirra hafi gist í sveitarfélaginu og aðrir komi í dagsrúnt frá þjóðvegi 1. Um 70% þeirra sem gista á staðnum koma á vegum ferðaskrifstofa og áætla má að um 30% þeirra er koma í dagsferð komi samkvæmt ráðgjöf ferðaskrifstofa. Mínar vísindalegu ágiskanir eru því að segja að um árið 2015 hafi um 60% gesta á Borgarfirði eystra dreift sér til okkar á einhvern hátt sjálfir. Þar spila örugglega inn í umsagnir, leiðsögubækur, internet fróðleikur og tilvísanir frá upplýsingastöðvum og öðrum ferðamönnum á þjóðveginum.

Þá má líka álykta að ferðaskrifstofur er þekkja áfangastaðinn vel senda um sjö þúsund gesti í gistingu á Borgarfirði og um 80% ferðaskrifstofa með leyfi senda ekki gesti á Borgarfjörð eystri.
Staðreyndin er sú að ferðamaðurinn vill dreifast, á eigin vegum eða skipulögðum ferðum um landið okkar og náttúru þess. Við verðum að einbeita okkur að því að efla þjónustu okkar á áfangastöðum, bæta og viðhalda vegakerfi landsins og passa að aðrir innviðir styðji ferðamöguleika gesta og heimamanna. Ekki síst í þeirri viðleytni að tryggja upplifum og kyrrð og ró fyrir þá er sækjast eftir slíku

Svo einfalt er það að þessu sinni.

Með kveðju úr firðinum fagra
Arngrímur Viðar Ásgeirsson

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel