8_gamlirgodirtimar

Gamlir góðir tímar

Ég ætla að deila með ykkur reynslusögum um þætti úr starfi mínu sem ferðaskipuleggjandi og sem neytandi á fegurð vorrar fósturjarðar ,Íslands í gegnum tíðina.

Þegar ég var 18 ára hitti ég mann sem átti grænan Rússajeppa með blæju og hvítri skóflu festa á bílinn. Vá hvað þetta var flottur bíll og ekki var gæinn síðri. Þetta var árið 1966. Með þessum manni og hans félögum hef ég svo ferðast um Ísland í fimmtíu ár. Við fórum ekki alltaf hefðbundnar slóðir. Oft var  farið yfir breiðar djúpar ár og dýpið kannað með járnkarli eða vaðið yfir á vöðlum. Gist var í tjöldum og gengið upp á marga fjallatinda og um fagra dali og slóða. Gengið var upp á Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul, Langjökul og margra aðra jökla og fjöll. Rússajeppinn varð undan að láta fyrir Bronco, glæsikerru árgerð 1966 og síðar komu nokkrar Toyótur. Bílarnir urðu kraftmeiri, dekkin stærri, ferðirnar lengri og jú, eitthvað meiri áhætta á stundum. Þetta voru magnaðir tímar, allar helgar og öll sumarfrí var haldið til fjalla og nýjar slóðir kannaðar. Svo stækkuðu fjölskyldurnar, börnin fæddust og voru tekin með nánast beint úr móðurkviði. Þessar ferðir gerðu það að verkum að í dag þekki ég nánast hvern krók og kima á landinu bláa. Það var því auðvelt fyrir mig að hefja störf í ferðaþjónustunni með þetta veganesti.  Á árunum milli 1980 – 1990 var eins og hellt væri úr fötu viskubrunna minnar kynslóðar í ferðaþjónustunni. Þyrstar erlendar ferðaskrifstofur tóku vel á móti nýjum ferðapökkum og allt var á bullandi siglingu í sölu og markaðsmálum. Þá var líka svaka vinsælt að fara með fyrirtækjum frumkvöðlanna Guðmundi Jónassyni og Úlfari Jacobsen í ævintýraferðir inn á hálendið og þar sem ekki var mikið um veitingastaði þá var bara matarbíllinn, kokkarnir og græjurnar teknar með hverjum hópi. Já þetta voru dýrðartímar, allir svo þakklátir fyrir allt sem var skipulagt og lagt upp í hendurnar á ferðamanninum. Bara velja sér ferð, panta og dvelja svo með flottum fararstjóra og bílstjóra í 2-3 vikur á Íslandi. Með þessu móti gátum við stjórnað nokkuð vel hvert fólk fór, hvar var öruggt að keyra og tjalda, hvað vildum við helst sýna okkar gestum. Þessar hugsanir fara oft í gegnum minn huga í dag þegar fréttir berast af þúsundum bílaleigubíla sem eru á ferð um landið með fólk sem varla kann að aka á íslenskum vegum og lendir á Siglufirði fyrstu nóttina í stað götu í Reykjavík sem bar sama nafn. Þá hugsa ég oft hvort ekki þurfi að stýra þessari umferð betur. Það er ekki létt verk og ferðamaður dagsins í dag er sjálfstæður og fróðleiksfús og vill helst skipuleggja sjálfur sína ferð. Er það ekki einmitt það sem við gerum sjálf þegar við förum í ævintýraferðir um frönsku Alpana, ítölsku Dólómítana, eða að heimsækja Astrid Lindgren ævintýrin í Smálöndum Svíþjóðar. Það er nefnilega svo gott að líta stundum í eigin barm og skoða hvernig við högum okkur á ferðum okkar erlendis. En samt verð ég að segja að ég þekki ekkert öll þessi lönd og svæði sem mig langar að heimsækja í hinum stóra heimi. Þá er gott að geta leitað uppi fróðan aðila til leiðbeiningar eða jafnvel fara í skipulagða ferð með góðum fararstjóra eins og þeir hjá Guðmundi Jónassyni og Úlla Jac í gamla daga.

Höfundur
Hildur Jónsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel