Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Gæði en ekki græðgi

Höfundur
Ásbjörn Björgvinsson

Í umræðunni um framtíð ferðaþjónustunnar hefur mikið verið rætt um fjölgun ferðamanna í stað þess að skoða frekar með hvaða hætti hægt er að lengja dvöl ferðamanna og fá þannig fram meiri tekjur af hverjum ferðamanni og bæta arðsemi innan greinarinnar.

Lenging dvalar, aukin þjónusta og aukin gæði ættu að vera höfuðmarkmið greinarinnar frekar en endalaus fjölgun. Ein besta leiðin til að lengja dvöl ferðamanna er að bjóða upp á nýja afþreyingu, nýja segla, nýja þjónustu, aukin gæði og vingjarnlegra viðmót, og að benda ferðamanninum á að heimsækja líka „samkeppnisaðilann“ eða svæðið sem þú keppir við, því þannig náum við fram mun betri nýtingu á fjárfestingunni. Ein af grunnforsendum þess að fá ferðamenn í heimsókn er að það sé eitthvað sérstakt að sækja.

Það er búið að sýna svo víða að sterkir seglar geta fengið ferðamenn til að fara um langan veg og ferðast til fáfarnari staða ef aðdráttaraflið er nægjanlega sterkt og markaðssett á réttu markhópana. Dæmi, Húsavík, hvalaskoðunin, Djúpivogur fuglaskoðun, Borgarfjörður Eystri gönguferðir og Bræðslan, Siglufjörður, síldarsafnið og almenn uppbygging á nýrri ímynd bæjarins. Hvammstangi selasiglingar og selaskoðun við Vatnsnes. Grundarfjörður að vetri, háhyrningar og norðurljós. Vestmannaeyjar, Eldheimar og fl. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um sterka segla sem byggðir hafa verið upp og þá ekki síst í samvinnu og sátt við heimamenn á hverjum stað.

Fallegar gönguleiðir, stórkostleg náttúra, sagan, mannlífið, maturinn og matvælavinnsla tengd sjónum. Við eigum eftir að nýta okkur enn betur þá auðlind sem felst í matreiðslu á öllum okkar fisktegundum víða um land og nýta sem segla fyrir ferðamenn. Handverk og allskonar „local“ vara og upplifun geta skapað tekjur og störf fyrir heimamenn og gert heimsókn t.d. farþega skemmtiferðaskipanna ánægjulegri.

Það er mjög mikilvægt að hvert samfélag taki þátt í svona uppbyggingu eða hafi einhverja aðkomu að stefnumótuninni til að sátt sé við þá vegferð sem lagt er upp í. Ég legg áherslu á eitt: Verið SÖNN, ekki búa til leikrit eða óekta leikmyndir sem sýna hlutina ekki í réttu ljósi. Það sem ferðamaðurinn upplifir einna sterkast er hvað við sjálf erum hjálpsöm, brosmild og gestrisin.

Ferðaþjónustan hefur undanfarin ár unnið markvist að stefnumótun en henni lýkur aldrei því aðstæður breytast hraðar en reiknað er með. Í mínum huga er stefnumótun að vera vitur eftir á, fyrirfram. Þessi umræða þarf því stöðugt að vera í gangi.

Ferðaþjónustan, stjórnvöld og sveitarfélögin verða alltaf að fylgja þeim þremur markmiðum sem sjálfbær nýting byggir grundvöll sinn á, því að öðrum kosti er hætta á að auðlindin skaðist, samfélögin verði ósátt og gesturinn okkar fái ekki lengur trúverðuga upplifun eða þau gæði sem við lofum.

Gæði en ekki græðgi þarf að vera okkar leiðarljós inn í nýja framtíð íslenskrar ferðaþjónustu. Því gott orðspor berst víða en illt út um allt !

Höfundur
Ásbjörn Björgvinsson

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel