ferthajonusta-og-flokkarnir

Ferðaþjónusta og flokkarnir – hvað skal kjósa?

Um ferðamálastefnur flokkanna fyrir kosningar

Höfundur: Bjarnheiður Hallsdóttir

Þegar þessi orð eru skrifuð eru 28 dagar til kosninga.  Miðað við styrk og vöxt ferðaþjónustu, sem nú er orðin langstærsta útflutningsgrein Íslendinga, mætti ætla að flokkarnir sem bjóða fram til Alþingis væru með skýrt mótaða stefnu í málefnum hennar. Jafnvel tillögur um aðgerðir á næstu misserum.  Enda löngu kominn tími til að taka málaflokkinn föstum tökum og láta verkin tala. Um það eru allir sammála, þó vissulega greini menn á um aðferðir og útfærslu. En eins og könnun undirritaðrar leiddi í ljós, þá er það ákaflega misjafnt, hvort  (og þá hvernig) þeir sjö flokkar sem í dag eru líklegastir til að ná mönnum inn á þing, hafa telft fram einhverri stefnu í ferðaþjónustu. Sumir flokkanna hafa birt upplýsingar um stefnu sína á heimasíðum sínum. Aðrir ekki. Þeir flokkar, sem ekki hafa birt stefnu fengu sendan tölvupóst  með beiðni um upplýsingar.

Björt Framtíð

Á heimasíðu Bjartar Framtíðar er minnst á ferðaþjónustu í sömu setningu og skapandi greinar, grænan iðnað, tækni- og hugverkageirann og rannsóknir og þróun. Sem sagt eins og eitthvað sem er enn frekar óáþreifanlegt og ekki alveg í alvörunni. Rætt er um að þarna þurfi heildarplan, aðgerðahóp, stefnumörkun, hagtölugerð, bætt skattumhverfi og samkeppnissjóði. Þetta er að mínu mati mjög almenns eðlis, ekkert nýtt þarna á ferð og engin afstaða tekin eða skýr stefna mörkuð.

Framsóknarflokkur

Á heimasíðu Framsóknarflokks er hvergi að finna neinar upplýsingar um stefnu flokksins í ferðaþjónustu. Tölvupósti hefur ekki verið svarað.

Píratar

Píratar hafa lagt nokkra vinnu í sína ferðamálastefnu (júní 2016). Þeir hafa myndað sér skoðun í stóra gjaldtökumálinu á þann hátt að gistináttagjald eigi að vera hlutfall af verði gistingar (ekki föst upphæð) og að hluti gistináttagjalds eigi að renna til sveitarfélaga. Einnig fara þeir nokkuð ítarlega yfir hvers konar framkvæmdir þeir vilja sjá og leggja áherslu á frjálsa för almennings og ferðamanna um landið.

Samfylkingin

Á heimasíðu Samfylkingarinnar er hvergi að finna neinar upplýsingar um stefnu flokksins í ferðaþjónustu. Tölvupósti hefur ekki verið svarað. Hins vegar hefur formaður flokksins, Oddný Harðardóttir, gert rækilega grein fyrir afstöðu flokksins til greinarinnar undanfarið. Samkvæmt henni, þá er ferðaþjónusta ómagi á þjóðinni, veldur óþægindum og álagi á alla innviði og hefur að auki fengið niðurgreiðslur (eða meðgreiðslur) í formi skattafsláttar í milljörðum talið. Samfylkingin vill setja alls kyns gjöld á ferðaþjónustu, en hefur ekki skilgreint þau nánar.

Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkur byrjar stefnuplagg sitt á að fjalla um „Atvinnuvegi“. Ekki er þar minnst einu orði á ferðaþjónustu. Ef hins vegar er skrollað neðar í plaggið, þá er þar sérstakur kafli sem heitir „Ferðamál“. Nú er spurning hvort það sýnir að ferðaþjónustan hafi meira vægi en aðrar atvinnugreinar hjá Sjálfstæðisflokknum, eða akkúrat öfugt? Megininntak stefnu Sjálfstæðisflokksins er mikilvægi eignarréttar og að heimila skuli gjaldtöku á einstökum svæðum til að stýra aðgangi ferðamanna. Þetta minnir óneitanlega á innihald skýrslu Samtaka Atvinnulífsins, sem kom út fyrir örskömmu. Hins vegar virðist flokkurinn ekki alveg hafa náð sínum „fókus“ hvað þetta varðar, því í stefnunni segir einnig að skatttekjur af greininni séu það miklar að þær skapi svigrúm til verulegra fjárfestinga í innviðum. Einnig kemur fram að ekki sé fyrirhugað að skattleggja ferðaþjónustufyrirtæki meira en nú er, hins vegar sé „eðlileg“ gjaldtaka sjálfsögð.

Viðreisn

Nýji flokkurinn í hópnum er með stutta en skýra stefnu. Hann leggur áherslu á að efla tekjulindir sveitarfélaga og leggur til að tekið verði upp bílastæðagjald við ferðamannastaði. Þannig fáist tæki bæði til tekjuöflunar og aðgangsstýringar. Viðreisn vill einnig tryggja flugsamgöngur innanlands t.d. með betri tengingu við Keflavíkurflugvöll.

Vinstri grænir

Vinstri grænir vilja stýra uppbyggingu innviða og að „þeir sem hafi arð af náttúru landsins“ greiði fyrir nýtinguna, hvort sem staðirnir eru í eigu einkaaðila eða hins opinbera. Hins vegar vilja Vinstri grænir á sama tíma tryggja að aðgangur almennings sé óskertur á grundvelli almannaréttar. Ekki er skilgreint hverjir „hafa arð“ af náttúrunni, en hins vegar má skilja, ef lesið er á milli línanna, að VG vilji skattleggja ferðaþjónustufyrirtækin meira.

Það er alveg ljóst að það eru engar ferðaþjónustuflugeldasýningar í boði flokkanna í kortunum eftir kosningar. Flestir flokkanna orða stefnu sína mjög almennt. Beinar aðgerðir eru sjaldnast boðaðar og það eina sem kemur nokkuð skýrt fram er að einhvers konar gjaldtaka er flestum stjórnmálamönnum ofarlega í huga.  Það virðist sem fáir ef einhverjir flokkanna hafi lagt á sig mikla vinnu við að setja sig rækilega inn í málefni ferðaþjónustu og er það mjög miður. Það hefði að mínu mati verið sjálfsagt og eðlilegt að flokkarnir hefðu gefið upp sína afstöðu í helstu álitamálum sem brenna á greininni í augnablikinu, t.d. hvað varðar:

  • Uppbyggingu aðstöðu á ferðamannastöðum
  • Úrbætur í samgöngumálum
  • Flugvallamálin
  • Stóra gjaldtökumálið
  • Hvernig sveitarfélög skuli fá sneið af kökunni
  • Útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna
  • Almenn skattamál greinarinnar.

Nú er  bara að gera upp við sig hvaða flokkur er líklegastur til að taka ferðaþjónustu upp á sína arma og skapa henni þau skilyrði sem hún þarf til að halda áfram að eflast og dafna.

  • Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar
  • Ljósmynd Bjarnheiður Hallsdóttir