Mynd eftir Bjarnheiði Hallsdóttur

Ferðaþjónusta – já eða nei?

Höfundur:
Bjarnheiður Hallsdóttir

Mikill vöxtur ferðaþjónustu á Íslandi síðustu misserin hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Ferðaþjónusta hefur skyndilega tekið sér mikið pláss og sett mark sitt á umhverfi sitt eins og aðrar stórar atvinnugreinar hafa gert í gegnum tíðina. Hún hefur verið mikið í sviðsljósinu og í umræðunni hjá þjóðinni. Allt er þetta eðlilegt, atvinnugrein verður ekki hávaðalaust að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar. En hugleiðum aðeins hvar íslenska þjóðin væri stödd hefði ekki komið til þessa mikla vaxtar ferðaþjónustunnar – beint í kjölfar efnahagshrunsins. Það er líklegt að hér væri töluvert öðruvísi umhorfs. Gróft upp talið og ef einungis er tekið tillit til efnahagslegra þátta, má gera ráð fyrir því að hér væri atvinnuleysi enn alltof mikið, hagvöxtur lágur, gengi krónu miklu veikara, verðbólga tiltölulega há, kaupmáttur miklu lægri. Ríkiskassinn töluvert tómlegri. Þá eru ótaldir fjölmargir aðrir áhrifaþættir ferðaþjónustu á samfélagið. En eru áhrif ferðaþjónustu á íslenskan efnahag og samfélag eingöngu jákvæð, eða eru margir neikvæðir þættir og ógnanir fyrir hendi?

Tekið skal fram að listinn hér að neðan tekur ekki tillit til hraðra breytinga í umhverfi ferðaþjónustunnar og tekur einungis á stöðunni eins og hún er akkúrat núna að mati greinarhöfundar.

Kostir

 • Stórauknar gjaldeyristekjur
 • Nýir neytendur koma inn í landið og kaupa vörur og þjónustu
 • Atvinnusköpun og aukin atvinnutækifæri – mannaflafrek atvinnugrein. Tækifæri fyrir fólk af öllum menntunarstigum.
 • Auknar skatttekjur ríkisins (t.d.virðisaukaskattur, skatttekjur af launþegum og fyrirtækjum)
 • Fjármögnun samneyslunnar kemur að hluta til utanfrá
 • Jákvæð áhrif á aðrar atvinnu- og einnig listgreinar (gríðarleg afleidd áhrif, ferðaþjónustan býr til mikil viðskipti fyrir fjölmargar aðrar atvinnugreinar)
 • Styrking íslensku krónunnar
 • Efling alls kyns þjónustu um allt land, sem kemur einnig íbúum landsins til góða
 • Jákvæð áhrif á byggðaþróun – auknir atvinnumöguleikar í dreifðum byggðum
 • Hvati til viðhalds menningarverðmæta
 • Hvati til samgöngubóta
 • Tekjur af ferðaþjónustu fara ekki úr landi, flest ferðaþjónustufyrirtæki eru í eigu Íslendinga – öfugt við sumar aðrar atvinnugreinar
 • Jákvæð áhrif á ímynd Íslands – uppbygging alþjóðlegs tengslanets sem nýtist t.d. öðrum útflutningsgreinum, einnig listum og menningu.
 • Stórbættar samgöngur til og frá Íslandi, sem einnig nýtist íbúum Íslands
 • Blómlegra mannlíf

Gallar

 • Álag á innviði
 • Álag á viðkvæma náttúru, hætta á náttúruspjöllum
 • Ferðaþjónustan ræðst á grundvöll sinn – hætta á að aðdráttaraflið eyðileggist
 • Meiri umferð á vegum úti
 • Aukin slysahætta
 • Álag á löggæslu og björgunarsveitir
 • Álag á heilbrigðisþjónustu
 • Menningarárekstrar
 • Hærra fasteignaverð, einkum í miðborg Reykjavíkur
 • Neikvæð áhrif á leigumarkað, einkum í miðborg Reykjavíkur
 • Áhrif á skipulag borgar og bæja, sem getur rænt þá upprunaleika og „karakter“
 • Ómenntað/óþjálfað vinnuafl sem dregur úr gæðum þjónustu
 • Ógn við íslenska menningu (hætta á einsleitri menningu „mono culture“)
 • Auðvelt aðgengi rekstraraðila – hætta á ófaglegum vinnubrögðum og skammtímahugsun
 • Styrking íslensku krónunnar sem orsakar hærra verð á ferðum til Íslands og hærra verðlag innanlands – orsakar minni eftirspurn til langs tíma

Eins og sjá má af þessari samantekt er uppgangur ferðaþjónustunnar ekki hættulaus. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að gallana getum við með réttu skipulagi og styrkri stjórnun haft veruleg áhrif á og jafnvel gert að engu. Gallarnir fela jafnvel í sér sóknarfæri sé rétt á málum haldið. Dæmi um það er heilbrigðisþjónustan sem með fleiri fullgreiðandi viðskiptavinum gæti elflst og styrkst um land allt. Öðru máli gegnir um kostina. Þeir eru flestir þess eðlis að við höfum litla stjórn á þeim og þeir geta af ýmsum ástæðum horfið frá okkur án þess að við fáum rönd við reist.

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

* Ljósmynd Bjarnheiður Hallsdóttir
* Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar