Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Ert þú einn af bestu hótelgestgjöfum Íslands?

Flestir eru sammála því að gæði í ferðaþjónustu eru mikilvæg. Gæði eru það sem aðgreinir eitt fyrirtæki frá því næsta og á tímum þar sem hótelum og gististöðum fjölgar mikið þá eru það meðal annars gæði í þjónustu það sem aðgreinir eitt hótel frá öðru.

Les Clefs D´Or samtökin í Danmörku leita nú að framúrskarandi gestamóttökustarfsmönnum á Íslandi til að ganga í félagsskapinn þar ytra. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta félagsskapur hótelstarfsmanna sem oftast eru kenndir við Concierge og eru í stuttu máli þeir sem redda málunum fyrir gesti sína í hverri borg fyrir sig. Starfsmennirnir sem taka aukaskrefin til að tryggja að gestirnir séu ánægðir. Aðalsöguhetjan í kvikmyndinni The Grand Budapest Hotel var einmitt meðlimur í félagsskapnum.

Þeir sem standast kröfur samtakana um fagmennsku og framkomu fá að verðlaunum að ganga með „Gylltu Lyklana“ í hnappagatinu sem er ákveðið gæðatákn fyrir hótelið sem þeir starfa á og ekki síður upphefð fyrir starfsmennina sjálfa að sjálfsögðu. Til að setja hlutina í samhengi má segja að ef fyrirfinnst framúrskarandi nýr meðlimur hérlendis væri það fyrir gististaði á Íslandi sambærilegt og ef veitingastaðir á Íslandi gætu státað af Michelin-stjörnukokk.

Það er því til mikils að vinna og það skal tekið fram að það er alls ekki þannig að gerð sé krafa um að umsækjendur starfi eingöngu sem Concierge enda ekki margir slíkir hér á Íslandi. Allir móttökustarfsmenn koma til greina svo lengi sem þeir eru með 5 ára reynslu í gistigeiranum og starfa við að skipuleggja hina ýmsu hluti fyrir hótelgesti sína og auka þannig virði vörunnar sem hótelið er að selja.

Von er á að formenn samtakana heimsæki Ísland á næstu mánuðum og munu þá taka viðtöl við þá sem uppfylla almennar kröfur um umsókn og þeir telja að eigi erindi í samtökin.

Almennar kröfur um inngöngu eru að umsækjandi skal:

  • Vera við störf á hóteli með gott orðspor á sér.
  • Vera með 5 ára reynslu í gistigeiranum (skristofustörf teljast með).
  • Vera með 2 ára reynslu í umönnun gesta.
  • Útvega meðmæli frá núverandi og fyrrverandi yfirmönnum.
  • Útvega meðmæli frá einhverjum í þjónustugeiranum.
  • Útvega ferilskrá með upplýsingum um fjölskylduhagi, atvinnu, menntun og afrit af viðeigandi skjölum um menntun og hæfni.
  • Skrifa bréf sem útlistar hvernig innganga sín myndi hafa jákvæð áhrif á störf Les Clefs d´Or ef viðkomandi fengi inngöngu.

Þeir sem hafa áhuga er bent á að senda inn umsóknir með fylgiskjölum á ensku/dönsku með tölvupósti á Uffe Sørensen og Anders Ruggiero: president@concierge.dk og a.ruggiero@dangleterre.com með fyrirsögninni „Iceland Application“.

Þeir sem vilja kynna sér samtökin betur er bent á að hafa samband við Snorra Valsson, hótelstjóra á Kvosin Hótel í netfangin snorri@kvosinhotel.is.

Að lokum er rétt að fara með tilvitnun eftir óþekktan höfund.
„Customers may forget what you said but they´ll never forget how you made them feel“

Höfundur
Geir Gígja

Skrifað í samvinnu með Snorra Valssyni.

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel