Erlendar bókunarsíður – hver er hinn raunverulegi skúrkur?

Island, Suedisland, Snaefellsnes Halbinsel, Berge, Meer, dramatische Lichtstimmung

 

 Erlendar bókunarsíður – hver er hinn raunverulegi skúrkur?

Það má segja að hinn mikli vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu hafi í tíma fallið saman við miklar breytingar í “dreifikerfi” ferðaþjónustunnar þ.e.a.s. þeim söluleiðum sem ferðaþjónustan fer frá frumframleiðanda til neytanda. Þáttur internetsins hefur spilað þar stærsta hlutverkið og sú þróun að neytandinn getur núna keypt ferðaþjónustu á netinu og nýtt sér um leið óháð gæðakerfi, sem eru umsagnir annara viðskiptavina um sömu þjónustu, áður en hann sjálfur tekur ákvörðun um að bóka, er þar þýðingarmest Frægustu dæmin um þetta eru bókunarsíðunar Airbnb.com og Booking.com en tugir annarra fyrirtækja eru á markaðnum. Það er því ósanngjarnt að binda umræðuna eingöngu við þessi tvö fyrirtæki eins og stundum vill verða. Í raun og veru eru allar bókunarþjónustur sem eru með starfstöðvar og höfuðstöðvar utan Íslands lögformlega á sama stað og hefðbundnu erlendu ferðaskrifstofurnar. Þær hafa verið starfræktar í áratugi og eru enn að störfum víða um heim. Þær selja bæði við afgreiðsluborðið og í gegnum internetið gistiþjónustu, afþreyingu og aðra íslenska ferðaþjónustu til neytenda á sínu markaðssvæði.

Yfirvöld um allan heim eru enn að þreifa sig áfram með góðar lausnir sem ná utan um nýjan raunveruleika. Stóru áskoranirnar og átakafletirnir eru skattamál, leyfismál, öryggismál og neytendavernd.

Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við með ýmsum hætti og má segja að regluverkið sé að mörgu leyti tilbúið að takast á við breytta tíma en mikið vantar uppá að eftirliti sé sinnt sem skyldi. Það er mér hulin ráðgáta af hverju eftirlitsaðilar hafa dregið lappirnar í þessu máli en almannahagsmunirnir hafa verið skýrir mjög lengi. Allir tilburðir í þessa átt hafa reynst hálfkák í samanburði við stærð vandamálsins sem nú er kallað “skuggahagkerfi” sem vegur þungt í íslensku hagkerfi. Bara í gistiþjónustu er reiknað með að skattaundanskot séu um 4 milljarðar á ári.

En þegar tekist er á við vandamál þá þarf að greina þau vel. Við hvað erum við að eiga? Hvernig lítur vandamálið út? Hverjar eru lausnirnar? Hvaða lausnir eru fljótlegastar og auðveldastar? Hvaða lausnir skila mestum árangri? Mér finnst hafa skort skýra sýn á vandamál sem hljótast af skuggahagkerfinu og hvernig við ætlum að nálgast þau. Sú tilhneiging til þess að kenna þessum erlendu bókunarsíðum um vandann er barnsleg einföldun í flóknum heimi. Við þurfum að byrja heima hjá okkur enda liggur langstærsti hluti vandans hér innanlands og lausnirnar líka.

Öðru hverju stíga fram lukkuriddarar með lausnir í málinu, afvegaleiða umræðuna en hverfa svo hljóðlega aftur til síns heima. Hugmyndir eins og þær að loka fyrir eigendaaðgangssíður á Internetinu, mjög sértækar lausnir eins og að Reykjavíkurborg semji bara við Airbnb (eitt sveitarfélag semur við eina bókunarþjónustu), eða að reynt verði að þvinga erlendar bókunarsíður inní íslenskt leyfis- og skattaumhverfi eins og til stóð á tímabili, eru skot framhjá stærsta hluta vandans sem er augljós og beint fyrir framan nefið á okkur.

Stóra vandamálið eru auðvitað innlendir rekstraraðilar sem reka sín viðskipti í skjóli myrkurs. Án rekstarleyfis eða heimagistingarskráningar og án þess að greiða lögbundna skatta og gjöld. Hver sá rekstraraðili sem er gripinn við rekstur ólöglegrar gistingar eða annarar ferðaþjónustu ætti annað hvort að vera látinn loka strax eða gefinn kostur á að fara inní það umhverfi sem stjórnvöld hafa búið slíkum rekstri. Það eru innlendu rekstaraðilarnir sem eiga að skila virðisaukaskatti og gistináttaskatti til ríkisins, það eru innlendu aðilarnir sem eiga að skrá tekjur sínar með löglegum hætti og færa bókhald samkvæmt lögum. Um það er ekki deilt og þar þurfum við að ná góðum árangri áður en við reynum að gera erlendu söluaðila okkar tortryggilega og kenna þeim um heimatilbúinn vanda okkar.

Eitt mál í viðbót sem hægt er að laga hratt og örugglega snýr að gistináttaskattinum. Gistináttaskatturinn er ekki óumdeildur og sitt sýnist hverjum en einn þáttur hans er óásættanlegur og ég held að flestir geti verið sammála um það. Sú staðreynd að þeir gestir sem gista í heimagistingu (90 daga regla) séu undanþegnir gistináttaskattinum er ekki ásættanlegt fyrir neinn. Það eru góð og haldbær rök einföldunar fyrir undanþágu heimagistingar frá virðisaukaskattskerfinu. Gistináttaskatturinn á hins vegar að fjármagna innviði á ferðamannastöðum. Hann ættu allir ferðamenn að borga sama hvaða gistimáta þeir velja sér. Sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu sem fær gistiskýrslunar frá heimagistingaraðilum getur með einföldum hætti innheimt gistináttaskattinn af þeirri gistingu, smávægileg breyting regluverkinu, „just do it“!

Íslensk ferðaþjónusta hefur tekið stökkbreytingum á örskömmum tíma samhliða miklum breytingum í dreifi- og sölukerfum greinarinnar. Því fylgja miklar áskoranir fyrir stjórnvöld og við sem störfum í greininni þurfum að taka þátt í ábyrgri og uppbyggilegri umræðu um þau mál sem hæst bera hverju sinni. Pólariserandi umræða þar sem okkar mikilvægu endursöluaðilar á erlendri grundu eru gerðir tortryggilegir er ekki boðleg. Tökum til heima hjá okkur og höfum allt okkar á hreinu áður en við tökum samtalið við aðra um það hvernig þeir gætu hugsanlega bætt sig.

Áfram ísland!!!

Pétur Óskarsson