Ljósmynd eftir Thomas Linkel

Er ekki kominn tími á Dag ferðaþjónustunnar?

Sjómannadagurinn rann upp sl. sunnudag; bjartur og fagur um allt land. Árlega fögnum við hetjum hafsins og öllu fólkinu sem vinnur í sjávarútvegi hérlendis. Við fögnum þessari mikilvægu atvinnugrein í allri sinni breidd. Fjallað er um sjómennskuna út frá ýmsum sjónarhólum í fjölmiðlum, sjómannalögin, ímyndir sjómanna, hættur hafsins eru rifjaðaðar upp ásamt sjósköðum og látinna sjómanna minnst. En mikilvægast – og skemmtilegast – er að fólk kemur saman og fagnar.

Íslensk ferðaþjónusta þarf sárlega á slíkum degi að halda; ekki síst nú þegar umræðan í fjölmiðlum er oft og tíðum mjög neikvæð. Fjallað er í smáatriðum salernisferðir ferðamanna, skort á innviðum, lundabúðir, svarta atvinnustarfsemi, gefið er í skyn að ferðamenn kunni almennt ekki að aka á vegum landsins og margt fleira neikvætt er tínt til. Miðað við umfjöllun í fjölmiðlum mætti stundum halda að efling ferðþjónustunnar sé það versta sem hent hefur íslenska þjóð.

Dagur ferðaþjónustunnar væri til þess fallinn að hampa starfsfólkinu í þessari krefjandi atvinnugrein; fólkinu á ferðaskrifstofunum sem sinnir ótrúlegustu smáatriðum ferðaskipulags fyrir bæði einstaklinga og hópa af natni oft löngu áður en ferðamaðurinn mætir á svæðið, leiðsögumönnum og bílstjórum sem leggja sig fram í hverri ferð við að gera upplifun ferðamannsins eins jákvæða og unnt er, oft í erfiðum og jafnvel hættulegum aðstæðum, stjórnendum og eigendum fyrirtækja sem hafa byggt upp fyrirtæki sín með mikilli vinnu og yfirlegu oft á löngu tímabili. Og svo er það auðvitað allt starfsfólkið á veitingahúsunum, hótelunum, bensínstöðvunum, bílaleigunum, tjaldsvæðunum, upplýsingamiðstöðvunum, söfnunum, kirkjunum, verslununum og víðar. Allt þetta fólk sem í langflestum tilvikum sinnir sínum störfum með bros á vör, tilbúið að gera sitt allra besta fyrir ferðamennina okkar og um leið ferðaþjónustuna sjálfa.

Að sama skapi væri Dagur ferðaþjónustunnar til þess fallinn að tala ferðaþjónustuna upp. Að vekja athygli á því hvað hún skilar gríðarlega miklum tekjum inn í þjóðarbúið; vekja athygli á að ef til vill ættum við ekki að tala um „okkur“ og „þau“, því þegar öllu er á botninn hvolft eru ferðmenn einfaldlega venjulegt fólk sem einfaldlega er ekki heima hjá sér. Og að í hvert sinn sem við gefum okkur á tal við ferðamenn eru verulega líkur á því að þau samskipti verði ánægjuleg og gefandi.

dagurferda
Ein leið til að halda þennan dag hátíðlegan er að halda hátíð svipaða og þá sem Reykjavíkurborg stóð fyrir á sumardaginn fyrsta 2003 – 2009 í samtarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar um landið. Hátíðin fékk fyrst heitið Ferðalangur á heimaslóð enda var grunnhugmyndin sú að heimamenn gætu notið gæða ferðaþjónustunnar með einföldum og ódýrum hætti einn dag á ári – á heimaslóð. Ferðast án þess að færa sig úr stað. Nafnið krafðist þó nokkurrar útskýringar og því var skipt um nafn og tvö síðustu skiptin sem hátíðin var haldin bar hún heitið Ferðafögnuður. Haft var samband við fjölda aðila sem í ferðaþjónustu og þeir beðnir um að opna sínar dyr upp á gátt með afgerandi hætti, bjóða heimamenn velkomna, bjóða afslátt af ferðum eða aðgang að afþreyingu eða menningu með afslætti eða ókeypis. Einnig voru settar saman einfaldar, staðbundnar og ódýrar ferðir á svæðunum til að bjóða fólki að setja sig í fótspor ferðamannsins. Þessi leið til að fagna deginum virkaði vel en auðvitað gætu áherslur verið aðrar ef hátíð af þessu tagi verður aftur sett á laggirnar.

Ferðafagnaðurinn varð lagður af í kjölfar hrunsins í miklum sparnaðaraðgerðum borgarinnar á sínum tíma. Hugmyndin var hinsvegar góð og gild og þjónaði sínum tilgangi. Ef koma ætti á fót Degi ferðaþjónustunnar – undir hvaða heiti sem er – væri ekki óeðlilegt að SAF væri þar í ríkjandi hlutverki en fengi sveitarfélög um allt land og atvinnumálaráðuneytið ásamt stofnunum á vegum ríkisins í lið mér sér (Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála?) að fagna þessari stórkostlega skemmtilegu og skapandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er í allri sinni breidd.
Áður var þörf en nú er nauðsyn!

Höfundur
Dóra Magnúsdóttir

 

Dóra Magnúsdóttir starfar nú sem markaðsstjóri Farfugla en var verkefnisstjóri Ferðalangs á heimaslóð (Dag ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við ferðamálafulltrúa víða um land) árin sem Höfuðborgarstofa hélt utan um viðburðinn.

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel