Heimild: Komið fagnandi – Ferðaþjónusta á Íslandi: Uppgangur og áskoranir.  Efnahagssvið SA, september 2016

EKKI BARA NÓG AÐ BROSA …

Höfundur Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar TLH hf. fjárfestingafélags

Finn mig knúna til að skrifa leiðinlegan nöldurspistil sem efalaust hittir einhvern illa fyrir.  Eiginlega er þetta eins og hvert annað kvörtunarbréf en ég rígheld mér í máltakið forna og er þess fullviss að „vinur er sá er til vamms segir“ og vona að lesendur taki þessum skrifum á þann veg.

Kvöld eitt fyrir stuttu síðan fór ég á vinsælt veitingahús í miðborg Reykjavíkur.  Við höfðum pantað borð sem var eins gott því staðurinn var fullsetinn og mikið að gera eftir því.  Tekið var vel á móti okkur, við fengum borð á góðum stað og fljótlega komu bæði mat- og vínseðlar.  Á vínseðlinum er boðið upp á þrjá  mismunandi verðflokka af víni hússins en ekki er tekið fram hver tegundin er.  Þegar þjónninn, ung og brosmild stúlka, kom að borðinu okkar og spurði hvort hún gæti tekið pöntun bað ég hana að segja mér hvaða víntegundir þetta væru.  Þjónninn svaraði að bragði, „ég verð því miður bara að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um það því þetta er fyrsta kvöldið mitt“.  Þetta krúttlega svar hitti okkur vinkonurnar beint í hjartastað og  þar sem aumingja stúlkan stóð vandræðaleg fyrir framan okkur benti ég henni á að fá þessar upplýsingar hjá félögum sínum.  Hún kom að vörmu spori með miða þar sem búið var að hripa niður víntegundirnar og þá tók nú ekki betra við, því væntanlega hafði hún aldrei heyrt þessi heiti áður.  Við gátum varla varist brosi þegar hún bögglaði Cabernet Sauvignon og Pinot Grigio út úr sér en um leið var þetta brjóstumkennanlegt því stúlkugreyið var svo sannarlega að reyna að gera sitt besta.  Þrátt fyrir þetta áttum við ágætis kvöldstund, fengum prýðisgóðan mat og vín að drekka með.  Máltíðin var langt frá því að vera ódýr en hvor um sig greiddi í kringum tíu þúsund krónur fyrir.

En hvers vegna að taka svona dæmi og gera að grein hér í Ferðapressunni?  Jú því þetta er því miður staðreynd um marga af okkar annars góðu veitingastaði og sagan hér að ofan er langt frá því að vera einsdæmi.  Þökk sé auknum fjölda ferðamanna, þá hefur flóra veitingahúsa aldrei verið blómlegri en miklum uppgangi í veitingageiranum hefur einnig  fylgt aukin þörf fyrir starfsfólk og svo virðist sem faglærðir þjónar séu uppurnir.  Því miður læðist að manni sá grunur að mitt í þessu veitingahúsagóðæri hafi metnaður fyrir góðri þjónustu dalað og sagan hér að ofan er því eins og hver önnur hversdagssaga.

Árið 2015 voru viðskipti við veitingahús 11,2% af heildarkortaveltu meðalferðamannsins á Íslandi og þriðji stærsti liðurinn skv.gögnum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar og Ferðamálastofu.  Ekki er ólíklegt að þessi liður sé jafnvel stærri þar sem hótelin telja 19,9% af heildinni og inni í þeirri tölu er oft veitingaþjónusta s.s. morgunverður.  Veitingahúsin skipta því mjög miklu máli þegar kemur að upplifun og hvernig einkunn áfangastaðurinn fær.

Veitingavísitalan á Íslandi (verðlag á veitingahúsum) er í flokki þeirra hæstu í heiminum. Í kynningu sem efnahagssvið SA gaf út í september sl. kom fram að Reykjavík er í dýrari kantinum miðað við aðrar höfuðborgir.  Þriggja rétta máltíð kostar USD 104 í Reykjavík en næst á eftir kemur Osló USD 102 og Kaupmannahöfn USD 90,  samanborið við t.d. Barselóna og Berlín þar sem máltíðin kostaði USD 45.

Birt í Morgunblaðinu 10. okt. 2016
Birtist í Morgunblaðinu 10. okt. 2016

Stærsta áskorun hvers veitingahúss er að standa undir væntingum gesta sinna sem eðlilega eru býsna háar þegar verðlagið er hátt.  Hráefnið er alla jafna mjög gott og sjaldan heyrist kvartað yfir lélegum gæðum matarins, flestir leggja metnað sinn í útlit staðarins en þegar kemur að þjónustu er eins og eitthvað brotni.  Ófaglærðu starfsfólki virðist vera hent út í djúpu laugina með litla sem enga þjálfun og sagt að redda sér.

Því miður er pottur víða brotinn í þessum efnum og hér dugir ekkert annað en átak til að auka meðvitund fyrir góðri þjónustu.  Máttur samfélagsmiðla er mikill og fólk hikar ekki við að tjá skoðun sína og upplifun á hvorn veginn sem hún er.  Það getur ekki talist góð þjónusta ef þjónninn getur ekki einu sinni útskýrt matseðilinn eða upplýst hvert sé vín hússins?  Það dugir ekki að segja fólki bara að brosa og vera krúttlegt, þó það sé vissulega til mikilla bóta, veitingamenn komast ekki upp með svona kæruleysi.

  • Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar
  • Súlurit efst í grein, verð fyrir þriggja rétta máltíð í nokkrum borgum. Heimild: Komið fagnandi – Ferðaþjónusta á Íslandi: Uppgangur og áskoranir.  Efnahagssvið SA, september 2016