Umferð að Gullfossi er ekki það sama og umferð um Kjalveg

Draugaumferð á Kjalvegi

Höfundur Steinar Þór Sveinsson, sjálfstætt starfandi leiðsögumaður

Greinin hér að neðan var sett inn af greinarhöfundi sjálfum, Herberti Haukssyni á fésbókarsíðuna Bakland ferðaþjónustunnar í síðasta mánuði. Hann hafði áður talið að greinin sem fjallar um að bæta þurfi Kjalveg og koma á Samgönguáætlun ætti erindi við allan almenning á Íslandi og birti hana í einum landsfjölmiðlana:

http://www.visir.is/kjalvegur-a-samgonguaaetlun/article/2016160909127

Upp úr því spunnust nokkrar umræður á Baklandinu. Rútubílameistarar og þeir sem hærra eru staddir í fæðukeðju massatúrismans fögnuðu þessari grein, aðrir sem óttast að landið sé að missa sjarma sinn og sérkenni, og allt það sem hingað til hefur dregið ferðamenn til landsins lýstu sig ósammála inntaki hennar, frekari uppbygginu Kjalvegar og vega á hinu einstæða hálendi Íslands.

Hvað sem mönnum kann að finnast í þeim efnum þá er mikilvægt að umræðan fari ávallt fram á réttum forsendum. Útgangspunktur greinarinnar er að umferð um Kjalveg nú í ár hafi margfaldast og að um eitt þúsund bílar hafi ekið eftir veginum á degi hverjum frá júní til ágúst. Þessi fullyrðing er notuð af greinarhöfundi til að halda fram mikilvægi þess að Kjalvegur verði byggður upp.

Í fyrsta lagi er meinleg rökvilla fólgin í þessari niðurstöðu greinarhöfundar. Það er flestum ljóst hvers konar vegur Kjalvegur er. Það er því líklegast að þeir sem fara um Kjalveg fari hann nákvæmlega vegna þess að þeir vilji aka slíkan veg og verða fyrir þeim hughrifum sem því fylgja að ferðast milli fjalla og jökla á vegslóða, fjarri mannabyggðum, fjarri einmitt malbiki og hraðbrautum.

Í öðru lagi, og það er öllu alvarlegra mál, er sú fullyrðing greinarhöfundar að um eitt þúsund bílar hafi ekið eftir Kjalvegi á degi hverjum í sumar hreinlega röng. Samkvæmt teljara Vegagerðarinnar á Kjalvegi við Blöndulón gerðist það aðeins einn dag í sumar að umferð um Kjalveg náði 200 bílum sléttum, það var hinn 9. ágúst, annars voru alla daga í sumar færri bílar en það á leið um Kjalveg. Í júní gerðist það aðeins fimm daga að umferð um Kjalveg fór yfir eitt hundrað bíla á dag. Í júlí gerðist það ekki fyrr en um miðjan mánuð að umferðin fór yfir eitt hundrað og fimmtíu bíla á dag og seinni hluta júlí og í ágúst var umferðin milli hundrað og tvö hundruð bílar á dag. Tölur fyrir september sýna að það var aðeins einn dag sem umferð yfir Kjalveg fór yfir hundrað bíla. Þessar tölur Vegagerðarinnar eru órafjarri þeim tölum sem greinarhöfundur heldur fram, og dregur í framhaldi rökvillu sína af.

Greinarhöfundur fer heldur frjálslega með staðreyndir svo ekki sé meira sagt. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er Kjalvegur 168 kílómetra langur. Umferð á Kjalvegi fór hvergi yfir þúsund bíla á sólarhring í sumar samkvæmt meðaltölum Vegagerðarinnar nema á fyrstu 660 metrum vegarins, eða 0,4% af heildarlengd Kjalvegar. Sá vegspotti nær frá vegamótum Gullfossvegar og upp að Sigríðarstofu. Umferðin á þessum vegspotta lýsir ekki neinni hálendisumferð yfir Kjalveg heldur að mestu leyti heimsóknafjölda að Sigríðarstofu við Gullfoss.

Nokkuð meiri umferð er á sunnanverðum Kjalvegi ofan Sigríðarstofu en yfir Kjalveg allan. Þó hvergi nærri eitt þúsund bílum á dag. Líklegast skýrist það af umferð ferðaþjónustubíla á Langjökul og til snjósleðafyrirtækjanna tveggja sem hafa þar starfsemi. Undirritaður er einn af þeim sem kemur alloft þangað. Það er hans skoðun að markaðssetning Íslands sem ævintýralands missir marks ef uppbyggðir og malbikaðir vegir eiga að leiða ferðamenn að helstu perlum hálendisins. Undirritaður telur ekki eftir sér að fara vonda vegi til að veita viðskiptavinum sínum öðruvísi upplifun. Þeir sem ekki treysta sér til að vinna í ævintýralandinu eiga ekki heimtingu á að því sé breytt í Disneyland.

Undirrituðum er ekki kunnugt um hvaðan greinarhöfundur fékk þær tölur sem hann kynnir í grein sinni. Undirrituðum fundust þessar tölur ótrúlegar og þess vegna fór hann að grafast fyrir um málið og leita upplýsinga hjá Vegagerðinni. Þar vinnur ákaflega vingjarnlegt fólk sem er ávallt reiðubúið að hjálpa og upplýsa, sé eftir því leitað. Hver sá sem öðru hvoru keyrði eftir Kjalvegi í sumar hefði átt að setja spurningamerki við þessar tölur. Sú staðreynd að þær voru í raun samþykktar gagnrýnilaust og lagt út af þeim af ýmsum röddum innan ferðaþjónustunnar sýnir hversu litla tilfinningu margir virðast hafa fyrir því sem þeir eru að úttala sig um. Það er áhyggjuefni.

Það er hins vegar greinarhöfundar að útskýra hvernig hann fékk þessar tölur en útskýringar og leiðréttingar er þörf því margir drógu ályktanir út frá þessari grein og þeim tölum sem þar var haldið fram. Rangar ályktanir.

  • Allar greinar eru birtar á ábyrgð höfundar
  • Ljósmynd Steinar Þór Sveinsson