geir

Djásnið mitt – hún náttúra

“Þetta er fallegasti staður sem ég hef komið á” sagði miðaldra kona þegar hún bjó sig til ferðar frá einmana sveitahóteli við sjávarsíðuna í morgun. Já, hugsaði ég og brosti og missti svo útúr mér.. það er allstaðar fallegt á Íslandi þegar sólin skín og fuglarnir syngja á vorin. Konan horfði snöggt á mig eins og ég væri að gera lítið úr orðum hennar og sagði síðan: “Ég hef ferðast í yfir 30 ár og komið víða en þessi staður hefur sérstaka orku og kyrrð”. Ég meðtók boðskapin og skammaðist mín lítillega fyrir að gera lítið úr upphafsorðum þessarar ferðareyndu konu. Mitt hversdagslega umhverfi sem var að vakna af vetrardvala, hafði ekki losað sig við hvíta kápu úr fjöllum en tún og engi lítið eitt farin að grænka. Náttúran átti langt í það að skarta sínu fegursta af mínu viti en hún skartaði óneitanlega því sem hún átti og já það var fallegt.

Ég fór að hugsa, er þetta segull? Eða perla? Náttúrufyrirbæri? Já eða “ferðamannastaður”? Eða jafnvel áfangastaður? Vara? Eða er þetta innviður eða ferðamannasvæði?.

Niðurstaðan var einföld. Þetta var íslensk náttúra, veskú, nývöknuð og fersk, sem þessi kona fékk að upplifa í kyrrð og ró á fallegum morgni. Upplifun sem ekki var getið um í ferðabókun, ( vegna þess að þeir sem skrifa ferðabækur hafa aldrei tíma til að njóta augnabliksins í kyrrð og ró) og svo margt annað en selfí, útsýni eða myndastopp.

Náttúra Íslands er mikilfengleg í öllu sínu veldi þó að umfjöllun og vinsældir einstakra staða séu einhvern vegin alltaf í umræðunni og okkur dettur ekkert annað í hug en sama gamla stoppið. Ég velti því fyrir mér hvort að með þessari umræðu séum við sjálfum okkur verst og náum ekki sýna þessus djásni okkar, náttúrunni, virðingu. Auðvelda svarið er auðvitað sýnum við henni virðingu en að vel athugðu máli þá er niðurstaðan oft önnu. Við látum ökutækið, framkvæmdina, virkjunina, ferðamennina og okkur sjálf njóta vafans. Svo spyrjum við afhverju náttúran er ekki söm skömmu síðar. Stupid!

Ég ætla að njóta, eins og miðaldra konan og þess vegna vil ég að náttúran vakni fersk við hlið mér alla daga. Ég stuðla að því með því að bera virðingu fyrir djásninu mínu og benda öðrum á að gera það sama í mínu nærumhverfi.

Kveðja úr firðinum fagra

Arngrímur V.


*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda