5_grein

Deilihagkerfið og ferðaþjónustan

Deilihagkerfið er komið til að vera.

Þrátt fyrir að einstaklingar hafi leigt út sumarhúsin sín og íbúðir til ferðamanna á Íslandi í a.m.k. tvo áratugi, fór slík gisting ekki að skipta verulegu máli í gistiflóru landsins fyrr en allra síðustu ár. Sprenging í komum erlendra ferðamanna til landsins og nýjar söluleiðir í gegnum internetið hafa gert hið svokallaða “deilihagkerfi” mögulegt og opnað fyrir útleigu til ferðamanna á eignum einstaklinga eins og sumarhúsum, bílum og íbúðum.

Nú liggur í annað sinn fyrir alþingi lagafrumvarp Iðnaðar- og viðskiptaráðherra um heimagistingu http://www.althingi.is/altext/145/s/0731.html þar sem lagt er upp með að gera einstaklingum mögulegt að leigja út eigið húsnæði til ferðamanna með löglegum hætti sem aukabúgrein.

Skortur á lagaramma
Þrátt fyrir að lög um skipan ferðamála hafi verið endurbætt og lagfærð frá því að deilihagkerfið fór á flug þá hafa lögin sem snúa að leyfismálum til reksturs gistiþjónustu ekki fylgt eftir þeim breytta veruleika. Lögin sem nú eru fyrir hendi eru sniðin að atvinnurekstri og gera engan greinarmun á einstaklingi sem leigir sumarhúsið sitt út nokkrar vikur á ári og rekstraraðilum sem stunda atvinnurekstur í ferðaþjónustu. Skortur á lagaramma um leigu einkaaðila á íbúðum og sumarhúsum sem aukabúgrein hefur leitt til að þessi hluti ferðaþjónustunnar hefur vaxið og blómstrað utan ramma laganna og farið þannig framhjá helstu innheimtu- og eftirlitsaðilum samfélagsins.

Deilihagkerfið er velkomin viðbót í ferðaþjónustuna
Óhætt er að segja að deilihagkerfið hafi bjargað miklu í örum vexti  íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin ár og þeir miklu fjármunir sem þannig hefur verið aflað hafa skilað sér með einum eða öðrum hætti inní samfélagið. Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt að einstaklingar leigi út eigið húsnæði til ferðamanna og yfirvöld ættu að styðja við það.  Áætlað er að sumarhús á Íslandi séu u.þ.b. 14.000 og ef þau kosta varlega áætlað að meðaltali 12 milljónir hvert þá eiga landsmenn sumarhús fyrir u.þ.b. 170 milljarða í haga. Það er mikilvægt að nýta þessa fjárfestingu, a.m.k. að gera þeim sem vilja nýta fasteignir sínar með þeim hætti mögulegt að afla sér viðbótartekna með einföldum, öruggum og löglegum hætti. Það sama gildir um hús og íbúðir í þéttbýli sem eru vannýttar eða hagkvæmast er að nýta í skammtímaleigu. En þar koma auðvitað hagsmunir nágranna og samfélagsins til skoðunar og mikilvægt að vel takist til við að móta reglur sem eru ásættanlegar fyrir alla hagsmunaaðila.

Vilta vestrið og kúrekar norðursins
Það hefur verið látið að því liggja að einhver bráð hætta steðji að ferðamönnum sem gista í þeim þúsundum íbúða og sumarhúsa sem leigð eru án rekstrarleyfis í dag á vegum einkaaðila en það er auðvitað ekki rétt. Sumarhús og íbúðir landsmanna eiga öll að hafa verið tekin út af brunaeftirliti og byggingafulltrúum hvar sem þau standa. Sumarhús eða íbúð verður ekki óöruggur staður að sofa í bara af því að gesturinn borgar eigandanum húsaleigu fyrir skammtímadvöl í húsinu. Skortur á lagaumhverfi um deilihagkerfið hefur valdið fáti og ómarkvissum viðbrögðum yfirvalda víða um land. Þannig reyndi sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að margfalda fasteignagjöld á einstaklinga á síðasta ári sem leigja út sumarhúsin sín í sveitarfélaginu. Það varð til þess að næstum allir hættu opinberlega að leigja út sumarhúsin sín í Hvalfjarðarsveit. Vanstilltur fulltrú lögreglustjóra á norðurlandi eystra sigaði lögreglunni á erlenda fjölskyldu sem leigt hafði sér sumarhús í Mývatnssveit síðasta sumar og lofaði að næstu gestir yrðu reknir út á guð og gaddinn. Þannig þvingaði hann eina íslenska fjölskyldu til að hætta að leigja sumarhúsið sitt út með sama hætti og þúsundir annara fjölskyldna gera athugasemdalaust um land allt. Á sama tíma og hótel- og gistiheimilarekendur sem sitja í sveitarstjórn í Vík í Mýrdal banna einkaleigu sumarhúsa og íbúða á svæðinu fagnar bæjarstjórnin í Stykkishólmi blómlegri útleigu húsa og íbúða í einkaeign á þeirra svæði.

Eigendur sumarhúsa og íbúða sem stunda skammtímaleigu til ferðamanna á Íslandi gera auðvitað þá kröfu að lagaumhverfið sé skýrt og það gildi sömu reglur um land allt. Þar til löggjafinn hefur lokið þeirri vinnu og samtök sveitarfélaga komið sér saman um sanngjarnar reglur um þessi mál er mikilvægt að yfirvöld í landinu sýni gestum og gestgjöfum þá virðingu að grípa ekki til fálmkenndra aðgerða á grundvelli lagaumhverfis sem er gengið sér til húðar.

Það kom mörgum á óvart að vorið 2015 voru samþykkt á Alþingi lög sem heimila einstaklingum að leigja einkabílinn sinn út til ferðamanna á löglegan hátt en krafan um þann möguleika hafði ekki verið hávær í aðdraganda lagasetningarinnar.

Það eru fleiri mjög áhugaverðar hliðar á þessu máli, grein um skattamál og deilihagkerfið bíður birtingar.

Pétur Óskarsson

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel