20160606_140134

Byrjað á vitlausum enda

Höfundur
Kári Jónasson 

 

Aðalferðamannatímabilið hér á Íslandi er um það bil að hefjast, eða reyndar er það kannski þegar hafið , svo sem sjá má á örtröðinni í Keflavík.

Þar standa nú yfir framkvæmdir við stækkun stöðvar Leifs Eiríkssonar og tilkynnt hefur verið um enn meiri stækkun, til að taka á móti enn fleiri farþegum. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er gert ráð fyrir framkvæmdum við flugstöðina upp á fjörutíu milljarða króna á næstu fjórum árum, og þegar er byrjað á verki sem hljóðar upp á 20 milljarða króna- já hvorki meira né minna.

Svona bílar eru í sumar algengir á morgnana á vinsælum ferðamannastöðum í námunda við snyrtiherbergi.
Svona bílar eru í sumar algengir á morgnana á vinsælum ferðamannastöðum í námunda við snyrtiherbergi.

Á sama tíma og þetta gerist,eru fjárframlög til að styrkja innviðina hér á landi vegna aukningar ferðamanna hreinir smáaurar í samanburði við það sem er að gerast í Keflavík. Þegar ég tala um að styrkja innviðina, á ég ekki einungis við umbætur á ferðamannastöðum sjálfum ,- og ekki má gleyma klósettunum,- heldur allt sem er í kringum ferðamennskuna; það þarf betri vegi og betra viðhald sumar sem vetur, löggæslan þarf meira, og þá ekki síður heilbrigðisþjónustan á þeim stöðum þar sem traffíkin er mest. Það var greint frá því á dögunum að veita ætti meiri fjármunum til löggæslumála, en við skjóta yfirsýn virðist sem obbinn af því fé fari í einskonar aðkomueftirlit, en hinsvegar lítið út til löggæsluumdæmanna sjálfra. Það er eins og fjölga eigi þeim sem sitja við tölvuskjáina hjá Ríkislögreglustjóra í Reykjavík og á Suðurnesjum, en umdæmin eru svelt. Til að fegra þessa fjárveitingu aðeins er sagt að efla eigi hálendiseftirlitið. Ég upplifði það einmitt í fyrrasumar á Öskjusvæðinu að þar voru lögreglumenn á ferð, og allt gott um það. En þar var líka fjölmennt lið frá Landsbjörgu, starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs eða Umhverfisstofnunar og svo skálaverðir Ferðafélagsins. Þetta er orðið eins og lítið þorp þarna við Drekagil. Allt þetta fólk var að aka sömu vegaslóðana að mér sýndist og í sumum tilfellum hvert á eftir öðru.Maður hugsaði sem svo: „Þarf nú ekki meiri samræmingu og skipulag og betri nýtingu fjármuna“

Hér við Kolugljufur í Víðidal þarf nauðsynlega að bæta aðstöðu fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.
Hér við Kolugljufur í Víðidal þarf nauðsynlega að bæta aðstöðu fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Við gerð Vegvísisins og stofnunar Stjórnstöðvar ferðamála, heyrði ég aldrei minnst á heilbrigðiskerfið og mér er ekki kunnug um að neinn úr heilbrigðisgeiranum hafi verið kallaður til við gerð þess plaggs. Það sama á líka um við leiðsögumenn, enginn okkar var kallaður til við undirbúning málsins,, og þegar gerðar voru athugsemdir við það vinnulag, var bara sagt að við hefðum getað komið sjónarmiðum okkar á framfæri á opnu fundum sem haldnir voru víða um land!

Þannig var nú það

Nýlega var opnaður þessi fini stígur og utsynispallur austan við Goðafoss. Þetta er mikil framför og svona þurfum við að sjá víðar.
Nýlega var opnaður þessi fini stígur og utsynispallur austan við Goðafoss. Þetta er mikil framför og svona þurfum við að sjá víðar.

Niðurstaða mín er sú að byrjað sé á öfugum enda varðandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Það þarf að huga mun betur að innviðunum jafnframt því sem unnið er að hæfilegum endurbótum á Leifsstöð.

Allt þetta þarf að haldast í hendur og ef unnið er skipulega að þessu ætti að vera auðveldara að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið. Með góðu skipulagi og góðri samvinnu allra í ferðaþjónustunni getum við tekið á móti þeim fjölda sem væntanlegur er í sumar á þann hátt að allir fari ánægðir heim eftir dvölina á Íslandi því orðspor okkar er í húfi.

Höfundur
Kári Jónasson

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda