Andlit þjóðarinnar

Þið eruð andlit fyrirtækisins! Í rauninni andlit þjóðarinnar. Við reiðum okkur algjörlega á ykkur.
Engar smá kröfur þar!

Algengt er leiðsögumenn heyri ofangreint á undirbúningsfundum ferðaskrifstofa sem vilja tryggja að ferðir á þeirra vegum heppnist eins vel og mögulegt er. Orðunum fylgir í raun sá undirtónn að það sé á ábyrgð leiðsögumanna að ferðin, sem ferðamönnunum hefur verið seld, takist á allan hátt. Að þegar heim er komið segi ferðamennirnir öllum sem heyra vilja frá undurfallega landinu okkar og hversu gaman hafi verið í ferðinni; þar hafi dagskráin gengið upp og leiðsögumaðurinn verið frábær (excellent). Þá eru allir ánægðir; ferðamennirnir, ferðaskrifstofan og leiðsögumaðurinn.

En á sama tíma og við, faglærðir og reyndir leiðsögumenn, vinnum á þennan hátt eru á ferð um landið fólk sem hefur jafnvel ALDREI komið til Íslands áður og er að leiðsegja hópi ferðamanna. Þetta fólk kallar sig leiðsögumenn, eins og við hin. Hvernig getur þetta viðgengist? Hvers lags ,,andlit þjóðarinnar” er þar á ferðinni? Hvað þá andlit ferðaskrifstofunnar? Við getum bara ímyndað okkur hvað þetta fólk segir um land og þjóð. Hvernig það stendur að því að tryggja að ferðamennirnir virði viðkvæma náttúru Íslands og að þeir fari sér ekki að voða á hættulegum stöðum.

Endalausar sögur heyrast um óhöpp og skemmdarverk sem framin eru á landinu vegna óheftra og eftirlitslausra ferða margs konar ferðalanga um landið, jafnt í hópferðum sem á eigin vegum. Á sama tíma heyrast háværar raddir fólks um að það eigi ekki líðast að hópar ferðamanna ferðist um landið í fylgd óhæfra ,,leiðsögumanna”. Á þessari stundu er þó ekki margt sem bendir til þess að þetta muni breytast alveg á næstunni.

Kannski er þó örlítil týra í myrkrinu að nú er farið að minnast á að í þjóðgörðum, og öðrum verndarsvæðum landsins, eigi ekki að leyfa neinar hópferðir nema í fylgd viðurkennds innlends leiðsögumanns. Þetta væri svo sannarlega til bóta því þar með væri m.a. hægt að sjá til þess að hópurinn héldi sig á afmörkuðum göngustígum, í stað þess að traðka niður mosa og annan viðkvæman gróður úti um allt, og að ferðamennirnir nytu svæðisins af skilningi og virðingu.

Einnig eru ferðaþjónustuaðilar, sem eru vandir að virðingu sinni, æ oftar farnir að gera kröfu um að ekki fari aðrir með viðskiptavini þeirra um landið en faglærðir leiðsögumenn. Innlendar ferðaskrifstofur sem vilja halda viðskiptum við þessa erlendu ferðþjónustuaðila gera allt sem þær geta til að uppfylla þessar kröfur. Og það eru þessar ferðaskrifstofur sem halda undirbúningsfundi með leiðsögumönnum þar sem upphafsorð þessa pistils heyrast oftar en ekki.

Leiðsögumenn gera sér vel grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Þeir vita líka að geri þeir sitt besta til að standa undir væntingunum ferðamannanna þá njóta allir ferðarinnar – líka þeir sjálfir. Leiðsögumenn, sem hafa starfað í faginu í áratugi þrátt fyrir fáránlega lágt kaup, gera það af því þeir hafa ánægju afþví að vera ,,andlit þjóðarinnar” og njóta þess að vera góður gestgjafi. Og leiðsögumenn eru svo bjartsýnir að þeir trúa ekki öðru en að til að tryggja gæði og öryggi í ferðum sínum muni ferðaþjónustan almennt eingöngu vera með slíka leiðsögumenn að störfum.

Höfundur
Bryndís Kristjánsdóttir, leiðsögumaður

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Bjarnheiði Hallsdóttur