airbnb

Airbnb – hetja eða skúrkur?

Airbnb er orðið nokkurs konar samheiti yfir hið sívaxandi og vinsæla deilihagkerfi í gistiþjónustu sem hefur verið að ryðja sér til rúms af miklum krafti í heiminum síðastliðinn ártug eða svo.
Airbnb hefur verið tekið fagnandi af almenningi og ferðamönnum úti um allan heim. Það hefur gefið einstaklingum tækifæri til að taka þátt í ferðaþjónustu og afla tekna af eignum sínum, þegar þeir eru ekki að nota þær sjálfir og á sama tíma gefið ferðamönnum kost á að velja aðra tegund gistingar en þá hefðbundnu. Oft með því markmiði að komast í nánari tengsl við viðkomandi land og íbúa þess.
Airbnb er hinsvegar einnig í augum sumra, táknmynd um neikvæða þróun í ferðaþjónustu, undirrót svartrar atvinnustarfsemi og truflana á daglegu lífi heimamanna af völdum ferðamanna.

Hvað er Airbnb?
En hvað er þetta Airbnb? Airbnb var stofnað árið 2007 þegar tveir staurblankir stúdentar í San Fransisco notuðu tækifærið þegar borgin var uppbókuð vegna hönnunarsýningar og leigðu út 3 vindsængur á stofugólfinu hjá sér.
Þetta gekk svo ljómandi vel að í kjölfarið settust þeir niður, fengu þriðja mann til liðs við sig og ýttu hugmyndinni um húsnæðismiðlun til ferðamanna úr vör. Þetta voru þeir Brian Chesky, Joe Gebbia og Nathan Becharczyk, sem enn starfa hjá fyrirtækinu. Væntanlega þó ekki blankir lengur.

Airbnb byrjaði á að leggja undir sig stórborgir bæði í Evrópu og vestan hafs, en um þessar mundir er fyritækið að færa út kvíarnar og er farið að bjóða gistingu á hefðbundnum ferðamannastöðum t.d. í Sviss, á Spáni, á Ítalíu og á Grikklandi. Boðskapur Airbnb og grunnhugmynd er sú, að til þess að komast í alvöru snertingu við lönd, staði og ekki síst innfædda, sé þessi gistimáti sá eini rétti.

Í dag er markaðsvirði Airbnb áætlað um 25,5 milljarðar evra og eru um 2 milljónir gistieininga á skrá hjá fyrirtækinu (hjá booking.com eru um 800.000 einingar á skrá). Á Íslandi eru líklega um 4000 eignir á skrá hjá fyrirtækinu.

Umdeilt í meira lagi
Airbnb er þrátt fyrir hylli sína jafnt hjá almenningi sem og ferðamönnum mjög umdeilt fyrirtæki. Gagnrýniraddir berast úr ýmsum áttum og ekki síst frá hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að rekstaraðilar hótela og gistiheimila sjá Airbnb flest til foráttu. Þeir vilja meina að þeir missi spón úr sínum aski og einkum vegna þess að samkeppnisforsendur hótela og Airbnb-íbúða/húsa séu ekki sambærilegar. Og þá auðvitað hefðbundnum gististöðum í óhag.
Einnig er kurr í íbúum borgarhverfa, þar sem mikið er um útleigu á íbúðum á vegum Airbnb (eða sambærilegra fyrirtækja). Þeir vilja meina að mikið ónæði sé af ferðamönnum í íbúðahverfum, að þessi starfsemi þrýsti fasteignaverði upp, grafi undan leigumarkaði og svipti hverfin sínum upprunalega karakter.
Eflaust hafa allir eitthvað til síns máls, en þó má vera ljóst að tilkoma Airbnb og annarra sambærilegra fyrirtækja, hefur stækkað ferðaþjónustukökuna, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Bæði á þann hátt að bæta við framboð gistingar, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt á háannatíma ferðaþjónustu og með því að ná til nýrra markhópa, sem kannski hefðu ekki valið áfangastaðinn ef einungis hefðbundin gisting hefði verið í boði.
Svo má leiða að því líkum að sumir hópar dvelji lengur á áfangastaðnum þegar þeir gista í íbúðum eða húsum en á hefðbundnum hótelherbergjum.

Hvað segja reynsluboltarnir á Mallorca?
Á spænsku eyjunni Mallorca, sem á sér hvað lengsta sögu hefðbundinna ferðamannastaða, valda fyrirtæki á borð við airbnb miklum deilum. Þar þykir þó liggja ljóst fyrir að eyjan gæti aldrei annað eftirspurn án framboðs íbúða og húsa í deilihagkerfinu. Hið sama má örugglega segja um Ísland á ákveðnum tímum og svæðum. Á Mallorca gista um þessar mundir meira en 40% allra gesta í annars konar gistingu en á hefðbundunum hótelum. Þar er því haldið fram að ríkið verði af miklum tekjum vegna þessara gesta – en ef vel er að gáð, þá má reikna með að þessir gestir skili sínum evrum í kassann á annan hátt, en gestir sem bóka „allt innifalið“ á hótelum. Þeir fara og versla sjálfir í matinn, leigja bíla og fara út að borða. Þegar allt kemur til alls er því reiknað með að Airbnb sé hagkerfi Mallorca mjög mikilvægt.

Margt mjög jákvætt
Það er því margt jákvætt við deilihagkerfi á borð við Airbnb. Þau stuðla að betri nýtingu fjárfestinga, sem eitt og sér er risastór kostur og þar að auki getur almenningur – heimamenn – tekið þátt í ferðaþjónustu og hagnast á henni. Þar með eru meiri líkur á að heimamenn viðhaldi jákvæðu viðhorfi og viðmóti gagnvart erlendum gestum – sem er einn mikilvægasti þátturinn í uppbyggingu áfangastaða. Einnig má líta til dreifbýlisins og bæja og þorpa, sem ekki njóta mikils straums ferðamanna. Þar skapast tækifæri með útleigu húsa/íbúða/sumarhúsa til að laða að gesti og fá þá til að dvelja tiltölulega lengi á staðnum. Ég tel því vafalítið að starfsemi fyrirtækja á borð við Airbnb eru þegar upp er staðið og allt er talið þjóðhagslega hagkvæm.

Lög og reglur nauðsynlegar
Airbnb og sambærileg fyrirtæki eru komin til að vera. Það er því ljóst að þörf er á einhvers konar ramma utan um starfsemi þeirra. Um það eru flestir sammála. Hversu stífur sá rammi á að vera eru menn hins vegar alls ekki sammála um, hvorki hér á landi né annars staðar. Þó eru flestir á því að það á ekki að byggjast á heiðarleika leigusala hvort þeir borga skatta af starfseminni eða ekki. Einnig er talið mikilvægt að skilja greinilega á milli einstaklinga sem leigja út íbúðir sínar eða sumarbústaði og þeirra sem þykjast vera einstaklingar en eru í raun að stunda hefðbundna atvinnustarfsemi með fölskum formerkjum.

Deilihagkerfið er gott – ekki eyðileggja það!
Ég er sannfærð um ágæti deilihagkerfisins og vona að við tökum skynsamlega stefnu í þeim málaflokki. Það er mikilvægt að einstaklingar hafi frelsi til að ráðstafa eignum sínum án þess að teljast vera að stunda atvinnustarfsemi. Það eru háværar raddir sem krefjast þess að þeir sem leigja út íbúðir sínar eða sumarhús eigi að greiða af því fasteignaskatt eins og ef um atvinnuhúsnæði væri að ræða. En án þess þó að falla undir hefðbundinn rekstur, þar sem kostnaður við húsnæðið er frádráttarbær. Það er alveg ljóst að ef þessi krafa nær einhvern tímann fram að ganga, þá mun það gera útaf við þessa starfsemi, eða ýta henni endanlega undir yfirborðið.
Nokkur sveitarfélög á Íslandi hafa undanfarin misseri farið offari og sett reglur um útleigu íbúða og sumarhús eftir eigin hentugleika og oft á hæpnum forsendum. Það er í raun óskiljanlegt, þar sem fyrir Alþingi hefur legið frumvarp, sem gerir tilraun til að koma böndum og starfsemina, þannig að allir megi ágætlega við una. Þetta frumvarp var samþykkt þann 31.05.2016 og tekur gildi 1.janúar 2017. Þó þetta frumvarp sé örugglega ekki öllum að skapi og eitthvað í því sem orkar tvímælis (t.d. má búast við að hin svokallaða 90 daga regla verði umdeild og erfitt verði að framfylgja henni), þá er það í öllu falli betra en sú algjöra óvissa sem ríkt hefur.

 

Höfundur
Bjarnheiður Hallsdóttir

 

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd airbnb logo