DSC_2303

Af gestum og gjaldtöku

Á þessu ári má búast við rúmlega 1,7 milljónum gesta til Íslands og á næsta ári er öruggt að sá fjöldi fer vel yfir tvær milljónir. Gestum fjölgar því milli áranna 2015 og 2016 um 450.000, sem eru nærri jafnmargir gestir og komu til Íslands allt árið 2010. Á sama tíma hefur ekki mikið breyst er kemur að uppbyggingu innviða fyrir þessa gesti og raunveruleg hætta á því að þau vandamál sem komust í hámæli sumarið 2015 verði þeim mun sýnilegri nú í ár.

Með fjölgun gesta og sýnilegu úrræðaleysi er kemur að uppbyggingu, skipulagi og móttöku þessara gesta hafa raddir sem tala fyrir ýmiskonar sérstakri gjaldtöku orðið háværari. Tvennt hefur borið þar hæst. Annars vegar hefur verið rætt um sérstök komugjöld á flugvöllum landsins, eða sem greidd væru fyrirfram, líkt og ESTA sem fólk þarf að kaupa fyrir ferð til Bandaríkjanna og gildir í 2 ár. Hinsvegar er umræða um náttúrupassa þó af honum hafi ekki orðið, en hann var birtingarmynd hugmyndarinnar að þeir „borgi sem njóti“. Það er að með einhverjum hætti skuli sá sem upplifir hér náttúru eða mannlíf greiða fyrir það beint gjald.

Ég er ekki hrifin af sérstakri gjaldheimtu af gestum okkar fyrir það eitt að koma hingað, eða upplifa menningu og náttúru landsins. Tvennt vil ég nefna í því sambandi:

  • Ferðaþjónusta er eftirspurnardrifin þjónustugrein sem kemur inn á öll svið okkar mannlífs og samfélags. Með öðrum orðum gestir okkar eru ekki þorskafli eða makríll, sem rekur hér á fjörur okkar og gera þarf að verðmæti út. Ferðafólk kemur hingað og nýtir öll innviði okkar samfélags betur en ella og skapar forsendur fyrir nýsköpun og bætir rekstrargrunn fyrirtækja á miklu breiðari grunni en bara það sem snýr að upplifun náttúru. Tækifærin sem skapast af samneyti við erlenda gesti eru miklu meiri og merkilegri en svo að horfa skuli bara á gesti okkar sem féþúfur við komu. Ferðamennska er mikið menningarlegt afl og má segja að ferðalög fólks um heiminn séu einn stærsti umbreytingarþáttur menningarsamfélaga um heim allan. Íslenskt samfélag getur „hagnast“ í mun víðtækari skilning af gestakomum en bara því að ná peningum af gestum okkar. Slíkur hagur ætti að vera í forgrunni umræðu um ferðaþjónustu, en þá þarf auðvitað samhliða að sækja sér „góða gesti“.
  • Það að setja verðmiða á það eitt að koma hingað eða upplifa náttúru er dæmi um fjárvæðingu (e. monetization) óefnislegra gæða. Fjárvæðing alls í vestrænum samfélögum er orðin veruleg ógn við aðrar leiðir að gildismati og hampar efnisgæðum umfram önnur gæði líkt og heimspekingurinn Páll Skúlason hefur rakið vandlega.

Hverjar eru þá leiðir gjaldheimtu? Fyrir mér er það þrennt sem skal horfa til:

  • Ég vil snúa við þeirri undarlegu hugmynd að þeir borgi sem njóti, það er á þann hátt að þeir sem veita þjónustu sem býður upplifun greiði fyrir það sem þeir nýti, sem svo auðvitað gesturinn greiðir gegnum veitta þjónustu. „Þeir borga sem græða“ boðar ferðaþjónustu þar sem aðilar í greininni greiða fyrir veitta þjónustu og aðgengi, sem gestir greiða gegnum sinn verðmiða. Þannig gæti birtingarmyndin verið að sá sem gerir út ferðir í Skaftafell greiðir gjald til Vatnajökulsþjóðgarðs sem stendur undir uppbyggingu hans og þróun þjónustuinnviða. Sá sem gerir út ferðir í Reynisfjöru borgi þar gjald sem rennur til öryggisgæslu og uppbyggingar. Þannig eiga aðilar í ferðaþjónustu kröfu á þjónustu á staðnum og gestir sem þangað koma sjá hvað þeir eru að greiða fyrir. Þeir sem koma á eigin vegum á þessa staði greiði gjald fyrir það sem þeir nýta þar, s.s. bílastæði, salerni og uppbyggt og þjónustað aðgengi. Þetta gengur vel á Nýja Sjálandi og ekki nokkur ástæða til að ætla að þetta sé flóknara í útfærslu hér á landi.
  • Tekjur hins opinbera af ferðaþjónustu eru töluverðar gegnum skattheimtu af umsvifum í greininni. Síðustu áramót var tekið framfaraspor í breyttu skattaumhverfi greinarinnar þannig að greinar ferðaþjónustu borgi meiri gjöld til samneyslunnar. Tilfellið er að þorri þeirra sem nýta sér ferðaþjónustu hér á landi eru erlendir gestir, t.d. eru um 80% allra gistinátta á einu ári í þeirra höndum, sem er mjög óvenjuleg staða borið saman við helstu samanburðarlönd. Þar ber heimafólk uppi gistifyrirtæki. Með öðrum orðum, verum ekki feimin við að leggja gjöld á ferðaþjónustu, gjöld sem ferðaþjónustan setur inn í sinn verðmiða og erlendir gestir bera þannig uppi, samneyslu okkar og samfélagi til eflingar. Áskorunin hér er svo að tryggja að það fé sem frá ferðaþjónustu kemur nýtist til innviða uppbyggingar og þróunar í þeirri grein. Því þarf mögulega að setja upp sérmerkta tekjustofna.
  • Ef setja ætti sérstök gjöld þyrftu slík gjöld að koma jafnt niður á greinum ferðaþjónustu. Gistináttagjaldið sem nú þegar er innheimt er 100 kr. á gistinótt. Það má vel hækka jafnvel fimmfalt og væri samt ekki úr takti við það sem annarsstaðar gerist. Sambærileg gjöld má svo setja á bílaleigur, flug, afþreyingarfyrirtæki og aðra sem veita ferðaþjónustu og kalla til dæmis umhverfisgjald. Það væri tekjustofn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sem þannig gæti margelfst. Hvernig því fé væri svo ráðstafað og framkvæmd uppbyggingar við náttúruperlur landsins er svo efni í aðra grein.

Mín niðurstaða er sú að við ættum að leyfa ferðaþjónustu að vera það sem hún er: Hrein viðbót við umsvif íbúa þessa lands, viðbót sem margeflir getu okkar til að byggja hér öflugt samfélag. Rétt eins og landsmenn geta valið úr tugum áfangstaða á hverjum degi frá Keflavík í boði þeirra erlendu gesta sem halda uppi alþjóðlegu flugi til landsins, þá ætti samfélagið allt að geta notið góðs af gestakomum ef við þorum að rukka fyrir þá þjónustu sem við veitum og leyfum gestum okkar að vera með.

Edward H. Huijbens
Prófessor
Háskólinn á Akureyri

*Allar greinar eru birtar  á ábyrgð höfunda
*Ljósmynd eftir Thomas Linkel